Þróunarverkefni

Þróunarverkefni fyrir foreldra barna í 1. bekk 2020 – 2021

Að efla barnið mitt í lestrarnáminu? - Hvernig á ég að hjálpa barninu mínu í lestrarnáminu?

Grunnskóladeild Seyðisfjarðarskóla er þátttakandi í þróunarverkefni skólaárið 2020 – 2021 sem Skólaskrifstofa Austurlands stýrir. Þróunarverkefnið lýtur að fræðslu og kynningu á læsi, lestrarkennslu og þjálfunarefni í lestri fyrir foreldra nemenda í 1. bekk.

Markmið og inntak verkefnisins er:

 • Meginmarkmið verkefnisins er að efla foreldra nemenda í 1. bekk til að takast á við lestrarnám barnsins, en niðurstöður LOGOS-skimana 2015 – 2020 sýna að 29 – 49% nemenda ná ekki lágmarksviðmiðum í leshraða og lestrarnákvæmni. Best er að grípa inn í snemma og veita foreldrum ráð starx í 1. bekk.
 • Haldið verður námskeið fyrir foreldra þar sem þeir fá fræðslu um grunnþætti læsis; málþroska, hljóðkerfisvitund og stafaþekkingu. Kynntar verða markvissar og einfaldar aðferðir til að efla og þjálfa alla þætti læsis, sem foreldrar nota síðan í heimalestrinum stig af stigi og í takt við getu og þroska barnsins.

 • Eftirfylgni verður með verkefnunum með þremur stuttum fundum með foreldrum yfir skólaárið.

 • Frumskimun hjá nemendum í ágúst/september; bókstafakunnátta og lestur, hljóðkerfisvitund og nefnuhraði. Endurmat í janúar og önnur skimunarpróf frá mms.is skoðuð jafnóðum til að meta árangur.

 • Umsjónarkennari vinnur með kennsluráðgjafa að þessu verkefni, s.s. að sitja fundi, leggja fyrir skimunarpróf og rýna í niðurstöður.

 • Kennsluráðgjafi Skólaskrifstofu heldur utan um þróunarverkefnið og stýrir því í samvinnu við umsjónar-kennara og stjórnendur.

Eins og með öll þróunarverkefni, þarfnast verkefnið endurskoðunar og miklu væri áorkað með því að útbúa stutt myndbönd varðandi einfaldar þjálfunarleiðir í lestri s.s. hvernig efla megi hljóðkerfisvitund og bókstafaþekkingu, sem er undirstaða í læsisnámi.

 

Framvinda þróunarverkefnisins skólaárið 2020-2021

 • Búið er að halda tvö stutt fræðsluerindi fyrir foreldra, annað var haldið strax í haust þar sem kennsluráðgjafi fór yfir hugtök er tengjast hljóðkerfisvitund og hvernig hljóðkerfisvitund tengist lestri. Foreldrar fengu í kjölfarið hugmyndir um hvað er gott að þjálfa heima fyrir frá umsjónarkennara vikulega.

 • Lögð var áhersla á að þjálfa rím, samtengingu hljóða í orð, sundurgreiningu orða og orðhlutaeyðingu.

 • Annar foreldrafundur var í jan. 2021 þar sem farið var yfir ritun og lestur og tengsl ritunar og lestrar. Þá hyggjum við á einn foreldrafund enn fyrir sumarið þar sem fræðsla um sumarlestur verður meðal annars á dagskrá.

 • Umsjónarkennari hefur kannað stafa- og hljóðakunnáttu nemenda í hverjum mánuði á haustönn. Nemendur hafa unnið mest á stöðvum í íslensku þar sem öll ofantalin verkefni ásamt fleirum hafa verið notuð. Lögð hafa verið bæði læsi 1 og 2 fyrir hópinn. Lesskimun Menntamálstofununar í haust. Lesfimi í september og janúar.

 

 

Uppeldi til ábyrgðar//uppbygging sjálfsaga

Uppeldi til ábyrgðar

Vorið 2017 fóru stjórnendur, kennarar og starfsfólks alls skólans að viðra þær hugmyndir að gott væri að hafa sameiginlega uppeldis- og agastefnu sem unnið væri eftir í öllum deildum. Þá um haustið var skipaður hópur til að kanna hvaða stefnur væru álitlegar og þann vetur voru nokkrar stefnur skoðaðar í sameiningu og í sérstökum hópi sem fór fyrir þessari vinnu. Eftir að hafa kynnt okkur stefnur og rætt um kosti og galla mismunandi stefna þvert á allar deildir, var ákveðið í öllum starfsmannahópnum að kjósa um hvaða leið við myndum fara. Við kosningu kom í ljós að lang stærstur meirihluti starfsfólks leyst vel á Uppeldi til ábyrgðar, uppyggingu sjálfsaga (e: Restitution) sem er uppeldisstefna mótuð út frá hugmyndum William Glassen um fimm grunnþarfir okkar.

Skólárið 2018-2019 vann starfsfólk sameiginlega mikla undirbúningsvinnu við bæði endurmenntun og áætlanagerð vegna innleiðingar stefnunar.  Á skólaárinu 2019-2020 var stefnan kynnt vel fyrir nemendum og kennurum og áherslan á að kenna og læra í samræmi við áherslur stefnunnar. Það þýðir meðal annars að nemendur fóru vel yfir hver hlutverk þeirra eru, við fundum gildi starfsmannahópsins og skólasamfélagsins, nemendur útbjuggu bekkjarsáttmála og lærðu að þekkja styrkleika sína og styrkleika hvers annars enn betur. 

. Lesa má nánar um stefnuna á hnapp á forsíðu sem kallaður er Uppeldi til ábyrgðar. 

 

Innleiðing á nýrri skólastefnu

Innleiðing á nýrri skólastefnu sveitarfélagsins og sameiningu skólastiganna á Seyðisfirði er þróunarverkefni sem stendur yfir á árunum 2016-2021. Hægt er að kynna sér verkefnið og helstu áfanga þess undir flipanum Deiglan hér efst á síðunni en fimmára áætlun verkefnisins er að finna undir áætlanir. Verkefnið er styrkt af Sprotasjóði skólaárið 2017-2018.

 

Heilsueflandi skóli

Seyðisfjarðarskóli, allar deildir, tekur þátt í verkefninu Heilsueflandi skóli en árlega er þáttur tekinn fyrir í skólastarfinu, kannað er hvað vel er gert og hvað betur má fara þegar kemur að velferð nemenda. Verkefnið er úrbótamiðað og fléttast inn í dagleg störf stjórnenda, kennara og nemenda. Sjá nánar við að smella á fyrirsögnina. Verkefni okkar hafa verið styrkt af Lýðheilsusjóði 2017-2018

 

Bættur námsárangur á Austurlandi

Bættur námsárangur er skólaþróunarverkefni sem miðar að bættum námsarangri nemenda í lestri og stærðfræði á Austurlandi en skólinn skrifaði undir samning þess efnis á vormánuðum ársins 2015 líkt og flestir skólar á Austurlandi. Verkefnið var styrkt af Sprotasjóði.

Til að bæta árangur í læsi og stærðfræði gerum við meða annars eftirfarandi:

 • Skólinn geri sér áætlun um markmið, viðmið og leiðir í heimanámi,  lestrar- og stærðfræðikennslu og kennarar fara að áætlunum.
 • Foreldrar eru upplýstir um verkefnið og um mikilvægi sitt sem virkir stuðningsaðilar í námi barna sinna.
 • Skimunum er fjölgað svo hægt sé að framkvæma snemmtæka íhlutun ef vart verður við námsörðugleika hjá nemanda. 
 • Íslenskukennsla hjá tvítyngdum nemendum er aukin þar sem þörf er á  m.a. með stuðningi í leik- og grunnskóladeild.
 • Viðhorf til kennslu og náms í öllum greinunum og á öllum skólastigum er rædd í kennarahópnum. Litið er svo á að allir kennarar kenna íslensku og læsi og jafnframt kenna allir stærðfræði (og aðrar greinar)  og skapandi hugsun. Til dæmis með því að vera jákvæðar fyrirmyndir og með því að dýpka hugtakaorðaforða nemenda í daglegu tali og verkum. 
 • Miðað er að samfelldum námsferlum og samræmingu náms frá leikskóla til loka grunnskóla og litið er á nám nemenda sem einn feril frá leikskóla til framhaldsskóla.
 • Endurmenntun kennara miðar að því að þjóna markmiðum okkar um bættan námsárangur.  Í þeim tilgangi er Byrjendalæsi innleitt í grunnskóladeild og farið í verkefnið Orð af Orði á mið og unglingastigi en málörvunarverkefnið Lubbi finnur málbein er innleitt í leikskóladeild. Þessi verkefni eru þáttur í að innleiða fjölbreytta og áhrifaríka kennsluhætti í skólastarfinu.
 • Skólaskrifstofa Austurlands er virk í utanumhaldi og eftirliti með verkefninu og veitir aðstoð eftir þörfum.

Skoða má bækling Skólaskrifstofu Austurlands um verkefnið ef smellt er á fyrirsögnina

 

Fjölmenning í fámenni 

Skólaþróunarverkefni á árunum 2014-2015 sem fól í sér m.a. endurskoðun á stefnu skólans og skólanámskrá og þróun námsmats til samræmis við nýja aðalnámskrá. Verkefnið var styrkt af Sprotasjóði.