Reglur Leikskóla Múlaþings

 
Reglur leikskóla Múlaþings


1. Rekstraraðili

Leikskólar Múlaþings starfa samkvæmt lögum um leikskóla nr. 90/2008, reglugerð um starfsumhverfi
leikskóla nr. 655/2009 og Aðalnámskrá leikskóla 2011. Aðalnámskránni, sbr. 13. gr. laga um leikskóla
nr. 90/2008, er ætlað að vísa ólíkum hagsmunaaðilum í skólasamfélaginu veginn hvað varðar stefnu og
hugmyndafræði leikskólastarfs. Samkvæmt 1. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008 er leikskólinn fyrsta
skólastigið í íslensku skólakerfi og annast að ósk foreldra uppeldi, umönnun og menntun barna á
leikskólaaldri.
Í Múlaþingi eru sex leikskólar í jafnmörgum íbúa/skólakjörnum, þeir eru: Bjarkatún á Djúpavogi,
Leikskólinn í Brúarásskóla, Glaumbær á Borgarfirði eystri, Hádegishöfði í Fellabæ, Leikskóladeild
Seyðisfjarðarskóla og Tjarnarskógur á Egilsstöðum. Leikskólarnir eru ólíkir að stærð, umhverfi og
starfsaðstæðum og eru þrír þeirra samreknir með grunnskóla skólakjarnans, eða leikskólinn í Brúarási
sem starfar eftir skóladagatali grunnskólans, Glaumbær og leikskóladeild Seyðisfjarðarskóla.
Leikskólar Múlaþings nota leikskólakerfið Völu til að halda utan um starfsemi leikskólanna en bæði
starfsfólk og foreldrar nota kerfið til samskipta og upplýsinga.
2. Umsókn og innritun
Sækja má um leikskóla frá fæðingu barns, eða strax og kennitala þess hefur verið skráð. Sótt er um
leikskóla, sbr. 26. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008, á heimasíðu Múlaþings.
Skilyrði fyrir inngöngu í leikskóla er að barn eigi lögheimili í Múlaþingi. Barnið getur verið á
umsóknarlista þótt lögheimili sé annars staðar. Úthlutunin er einnig háð því skilyrði að foreldri sé ekki
í vanskilum með leikskólagjöld.
Víkja má frá meginreglum um inngöngu nemenda í leikskóla ef sérstakar aðstæður krefjast þess og
forgang í leikskóla eiga:
- Börn einstæðra foreldra.
- Börn í elsta árgangi leikskóla.
- Börn starfsmanna leikskóla Múlaþings.
- Börn geta fengið forgang skv. ákvörðun leikskólafulltrúa og fræðslustjóra, vegna sérþarfa og/eða
félagslegra erfiðleika. Beiðni um forgang þarf að fylgja bréf frá félagsmálastjóra, félagsráðgjafa,
viðurkenndum greiningaraðila, lækni eða öðrum sérfræðingum eftir því sem við á. Ef
foreldri/forráðamaður hefur athugasemdir við niðurstöðu má vísa erindinu til Fjölskylduráðs.
Aðalinnritun í leikskóla fer fram í apríl-maí og eru börn þá innrituð í stað þeirra sem útskrifast og hætta.
Í Bjarkatúni, Brúarási, leikskóladeild Seyðisfjarðarskóla og Glaumbæ er að auki innritað á haustin og í
janúar allt eftir lausum plássum og aðstæðum hverju sinni í leikskólanum þegar barn hefur náð eins árs
aldri.
Í Hádegishöfða og Tjarnarskógi er leikskólapláss, að jafnaði, í boði fyrir börn sem náð hafa eins árs
aldri við upphaf skólaárs leikskólans 1. september. Börn eru innrituð í leikskóla eftir aldri þannig að
eldri börn ganga fyrir þeim yngri. Ef pláss losnar í annan tíma á skólaárinu þarf að taka tillit til þess
aldursviðmiðs og tíma sem losnar þegar úthlutað er af biðlista í plássið.
Þegar barn hefur fengið inngöngu í leikskóla fá foreldrar tölvupóst frá leikskólastjóra með upplýsingum
um hvenær leikskólagangan hefst. Í flestum tilfellum hefst leikskólagangan við upphaf næsta skólaárs
eða eftir sumarleyfi leikskólans og varir fram að sumarleyfi árið sem barnið verður 6 ára.


3. Leikskólagjöld


Múlaþing greiðir að stærstum hluta kostnað við dvöl barna í leikskólum sveitarfélagsins og er
sveitarfélaginu heimilt ákveða gjaldtöku fyrir barn í leikskóla, sbr. 27. gr. laga nr. 90/2008.
Leikskólagjöld eru greidd fyrir fram, gjalddagi er 1. hvers mánaðar og eindagi 16. hvers mánaðar.
Foreldrar greiða leikskólagjöld í hlutfalli við þann tíma sem börn þeirra dvelja í leikskólanum. Einnig
greiða foreldrar fyrir fæði barna sinna.
Upplýsingar um gjöld og afslætti er að finna í gjaldskrá leikskóla Múlaþings og er hún birt á heimasíðu
sveitarfélagsins. Ef um þriggja mánaða vanskil er að ræða er rekstraraðila heimilt að segja upp
leikskólasamningi með mánaðar fyrirvara að undangenginni ítrekun.
Gjaldskráin er tvískipt:
Almennt gjald fyrir hjón og sambúðarfólk.
Forgangsgjald fyrir einstæða foreldra. Sækja þarf um að greiða forgangsgjald á þar til gerðu eyðublaði
sem hægt er að nálgast hjá leikskólastjóra. Til að greiða forgangsgjald þarf foreldri/forráðamaður að
vera skráður einstæður í þjóðskrá.
Heimilt er að innheimta sérstakt gjald ef foreldrar virða ekki umsamin leikskólatíma. Þar gildir að mæti
foreldrar of snemma með barn eða sæki það of seint oftar en einu sinni í mánuði er innheimt sérstakt
gjald í hvert sinn. Reglan er sú að barn með skólatíma 8:00-16:00 komi í leikskólann e. kl. 8:00 og er
farið fyrir kl. 16:00.
Til að njóta systkinaafsláttar þurfa börnin að vera skráð á kennitölu sama forráðamanns og með
sameiginlegt lögheimili. Greitt er fullt gjald fyrir yngsta barn. Þar sem það á við er systkinaafsláttur
samtengdur á milli daggæslu og leikskóla.
Hægt er að fá fæðiskostnað felldan niður ef nemandi er fjarverandi 10 skóladaga samfellt.
Leikskólastjórar óska eftir sumarleyfaskráningu allra barna og uppsögn elstu barnanna í apríl ár hvert
og skal skráningu vera lokið fyrir 1. maí.
- Leikskólagjöld falla niður í sumarlokun leikskólanna en leyfilegt er að fá leikskólagjöld felld
niður í allt að 6 vikur, eða 30 virka daga, vegna sumarleyfa á ári. Því er hægt er að sækja um
lengra gjaldfrítt sumarleyfi annað hvort í tengslum við sumarlokun eða ef leyfið er samfellt á
öðrum tíma. Ef sótt er um samfellt leyfi á öðrum tíma má nýta þá daga sem eftir eru, allt að 30
dögum. Ekki er hægt að sækja tvisvar eða oftar um niðurfellingu vegna sumarleyfa utan
sumarlokunar.

4. Leikskólasamningur


Við upphaf leikskólagöngu skrifa foreldrar undir sérstakan leikskólasamning sem meðal annars kveður
á um leikskólatíma, fæðiskaup og fl. Leikskólasamningur tekur mið af reglum þessum.
Gagnkvæmur uppsagnarfrestur á leikskólasamningi er einn mánuður og miðast við 1. eða 15. hvers
mánaðar. Segja skal upp leikskólasamningi hjá leikskólastjóra.
Óski foreldrar eftir breytingum á leikskólasamningi eða fæðiskaupum sækja þeir um það með tveggja
vikna fyrirvara fyrir 1. og 15. hvers mánaðar hjá leikskólastjóra eða í leikskólakerfinu.
Óski foreldrar eftir flutningi milli leikskóla skal sækja um það á þar til gerðu eyðublaði sem hægt er að
nálgast í leikskólakerfinu. Öll börn sem byrja í leikskólum í Múlaþingi hvort sem þau hafa verið áður í
leikskóla eða ekki fara alltaf í gegnum aðlögunarferli í nýjum skóla. Mikilvægt er að tryggja að
leikskólabyrjunin verði sem farsælust þó barnið hafi reynslu af því að vera í leikskóla.


Opnunartími, starfsmannafundir og starfsdagar


Leikskólar Múlaþings eru með ólíkan opnunartíma sem miðast við að mæta þörfum samfélagsins og
aðstæðum hvers leikskóla fyrir sig, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 655/2009. Leikskólar í þéttbýli eru ekki
opnir fyrir færri en 6 börn í upphafi og/eða lok dags. Að hámarki er gert ráð fyrir að leikskólarnir geti
verið opnir:
Bjarkatún, Djúpavogi: 7:45 til 16:15
Brúarás: 8:40 til 15:10
Glaumbær, Borgarfirði eystri: 7:50 til 16:00
Hádegishöfði, Fellabæ: 7:45 til 16:15
Leikskóladeild Seyðisfjarðarskóla: 7:45 til 16:15
Tjarnarskógur, Egilsstöðum: 7:45 til 16:30


Leikskólar Múlaþings eru lokaðir á aðfangadag, á milli hátíða og gamlársdag og eru gjöld felld niður
þessa daga. Leikskólarnir Bjarkatún, Glaumbær, Hádegishöfði, Leikskóladeild Seyðisfjarðarskóla og
Tjarnarskógur eru lokaðir í 5 vikur, eða 25 virka daga, vegna sumarleyfa og skiptist sumarlokunin í tvö
tímabil milli ára; fyrra tímabil, júní - júlí, og seinna tímabil, júlí – ágúst. Foreldrar geta óskað eftir vistun
fyrir börn sín milli hátíða og í fimmtu vikunni og er lágmarksfjöldi barna 6 í hverjum leikskóla fyrir
sig. Ef fjöldi barna eða starfsfólks er ekki nægilegur verður leikskólinn lokaður fimm vikur og/eða á
milli hátíða.


Vistunartími yngstu barna er frá kl. 08:00 – 15:00. Foreldrar geta sótt um 8. tímann hafi þau þörf fyrir
það.


Leikskólar Múlaþings eru lokaðir vegna starfsmannafunda 10 sinnum á skólaári, tvo tíma í senn ýmist
á milli kl. 8-10 eða kl. 14-16 allt eftir aðstæðum hvers skóla. Starfsmannafundir eru skráðir á
skóladagatal skólanna.


Auk þess geta foreldrar sótt um gjaldfrjálst leyfi, tengd grunnskóla þess byggðarlags sem viðkomandi
á lögheimili í, eftirfarandi daga:
• Dagar tengdir jólafríum
• í dymbilvikunni
• í vetrarfríum

Starfsdagar leikskólanna eru 6 og er leikskólinn lokaður þessa daga. Framkvæmd starfsdaga er alfarið
í höndum leikskólastjóra og þeim ráðstafað á þann veg sem best hentar hverjum skóla. Starfsdagar eru
skráðir á skóladagatal skólanna. Stefnt skal að því skólastjórnendur leik- og grunnskóla, í hverju
skólahverfi fyrir sig, samræmi þessa daga eins og kostur er.
Reglur þessar verða endurskoðaðar vor 2024 samhliða á endurmati á verkefninu Betri vinnutími
starfsfólks í leikskólum í Múlaþingi.