Haustið 2019 hófum við í Seyðisfjarðarskóla innleiðingu á uppbyggingarstefnunni, Uppeldi til ábyrgðar. Markmið skólans með verkefninu er að fá öllu starfsfólki skólans í hendur viðbótarverkfæri til að vinna með í samskiptum við börn og unglinga og sín á milli og öðlast verkfæri til að kenna nemendum að þekkja sjálfa sig og taka ábyrgð á eigin lífi. Verkfærin í Uppeldi til ábyrgðar eru fyrst og fremst til að nota á sjálfan sig og í samskiptum við aðra.
Hugmyndafræðin miðar að því að ýta undir ábyrgð og sjálfstjórn barna og unglinga og ýta undir að þau læri sjálfstjórn og þekkingu á eigin tilfinningum. Byggt er á því að einstaklingurinn læri að taka siðferðilega ábyrgð á eigin hegðun og taki ákvarðanir út frá löngun fremur en skömm eða sektarkennd. Ýmsir þættir eru notaðir til að hjálpa börnunum við að skoða sig og sína hegðun. Þau læra að skoða sig út frá spurningum eins og hver er ég, hvað vil ég vera og hvað þarf ég að gera til að ná takmarki mínu?
Við viljum líka búa í umhyggjusömu samfélagi þar sem okkur gefst færi á að leiðrétta mistök. Það er mannlegt að skjátlast og það er í lagi að mistakast því við getum leiðrétt mistökin og lært af þeim. Mistök eru í raun og veru hluti af því að læra.
Í skólastarfinu er áhersla á skýr viðmið um það hvað er æskileg hegðun. Skýrar reglur eru mikilvægar til að einstaklingar megi upplifa öryggi og traust. Barninu eru sköpuð tækifæri til að læra af mistökum sínum og því hjálpað og kennt að finna leiðir til að bæta hegðun sína og þá um leið að byggja upp sjálfstraust sitt.
Geðlæknirinn William Glasser hefur þróað nálgun sem hann útskýrir með þarfahringnum. Glasser telur að orsök vanlíðunar og slæmrar hegðunar sé að finna í því að einstaklingurinn nær ekki að uppfylla grunnþarfir sínar á eðlilegan máta. Hann segir að við þurfum að uppfylla fimm meðfæddar þarfir okkar til að vera andlega heil og hamingjusöm.
Grunnþarfirnar eru settar myndrænt fram í þarfahringnum og eru:
Við leggjum áherslu á að börnin velti fyrir sér spurningunni: Hvernig manneskja vil ÉG vera? Fremur en að hugsa: Hvað fæ ég fyrir ef ég geri svona eða hinsegin?
Mikilvægt er að hver og einn finni til ábyrgðar á hegðun sinni og sjái tilgang í því að koma vel fram, hvort sem einhver sér til eða ekki. Stefnan byggir á innri umbun, einstaklingurinn finnur til innri gleði við að leggja sig fram og vera manneskjan sem hann vill vera.
Uppeldi á ekki að vera hlýðniþjálfun, öllu heldur er áhersla á að hafa sterka forystu, virkja aðra með umræðu, samstarfi og lýðræðislegum vinnubrögðum.
Börnin læra að stjórna tilfinningum sínum. Ef eitthvað bregður út af eru málin rædd. Sköpuð eru skilyrði til að barnið geti lagfært mistök sín, snúið aftur til hópsins og um leið vaxið og dafnað við hverja raun.