Stefna

Sköpun er grunnurinn sem starf listadeildar Seyðisfjarðarskóla byggir á. Í gegnum skapandi vinnu ná nemendur tökum á grunnþáttum sköpunarferlisins. Nemendur fá þjálfun í hugmyndavinnu, en með því að stunda slíka vinnu markvisst, oft og reglulega og á víðum grundvelli verður nemendum tamt að finna lausnir á vandamálum, sjá möguleika til uppbyggingar, nýsköpunar og sjá sig sem gerendur í eigin lífi. Í ferlinu eru hugmyndir nemenda einnig framkvæmdar og nemendur læra að vinnusemi og þrautseigja kemur manni á leiðarenda. Í gegnum þetta ferli læra nemendur líka að axla ábyrgð á eigin vinnu. Ábyrgð á því að þeirra hugmynd verði að veruleika. Í upphafi skapandi ferlis setja nemendur sér markmið og fylgja þeim eftir svo eftir. Það er mjög dýrmætt að læra hvernig maður getur sett markið hátt án þess að gera óraunhæfar kröfur og ætla sér um of.

Innan deildarinnar er unnið að list- og verkgreinum: Myndlist, textíl, smíðum, leiklist, dansi og tónlist. Leitast er við að kynnast helstu straumum og stefnum í hverri grein fyrir sig, en aðaláherslan er að hver nemandi finni sína fjöl með því að vinna að verkefnum undir faglegri leiðsögn kennara. Starf í listadeild fléttast inn í starf grunnskóladeildar sem og leikskóladeildar skólans og tekur kennsla og áherslur hverju sinni mið af aldri og þroska nemenda.

Mikilvægi þess að ná færni í skapandi vinnubrögðum er tekið alvarlega í Seyðisfjarðarskóla, því færni á því sviði gefur nemendum tækifæri til að efla gagnrýna hugsun, takast á við hið óvænta, læra af mistökum og öðlast sjálfstraust til að standa með eigin verkefnum. Skapandi ferlar gera nemendur hæfa til að búa sér til sína eigin framtíð.

Í stefnu skólans er útgangspunkturinn sá að í hverjum nemanda búi fjársjóður. Það þarf að leita að fjársjóði og hann er ekki alltaf þar sem maður býst við að finna hann. Skapandi vinna gefur nemendum færi á að nýta sína hæfileika á sínum forsendum, hún gefur nemendum færi á því að velja sér sína eigin leið.

 

Vörður fyrir listadeild

  • Listadeild er faglega leiðandi deild í Seyðisfjarðarskóla hvað snertir samþættingu námsgreina, skapandi vinnu og kennsluaðferðir og nám til sjálfbærni.
  • Listadeild er hvoru tveggja samofin starfi í leikskóladeild og grunnskóladeild og er einnig deild sem býður upp á listnám utan hefðbundinnar skólagöngu. Slíkt nám er jafnframt í boði fyrir bæjarbúa.  
  • Áhersla í listadeild 2017-2018 er lögð á tónlistarnám og myndlistarnám. Tónlistarnám í listadeild er sem hefðbundið nám í tónlistarskóla þar sem stefnt er að stigsprófum.
  • Skoðað verður 2017-2018 hvort og hvernig danskennslu verður best viðkomið í starfi deildarinnar.
  • Kennsla í listadeild utan skólatíma getur verið í þéttum lotum eða yfir lengri tíma.
  • Gjaldskrá kaupstaðarins gildir fyrir námskeið utan skólatíma.
  • Skoðað verður 2017-2018 möguleika á að listadeild hafi umsjón með skólaseli og félagsmiðstöð kaupstaðarins.
  • Listadeild starfar í nánu samstarfi við Skaftfell menningarmiðstöð, Dansskóla Austurlands, Lunga skólann og fleiri stofnanir um þróun deildarinnar. Listamenn á vegum Skaftfells munu eftir sem áður geta átt í samstarfi við skólann um verkefni og listadeild tekur eftir sem áður þátt í verkefninu List í ljósi.
  • Stefnt er því að listadeild Seyðisfjarðarskóla geti orðið öðrum til fyrirmyndar hvað snertir skapandi vinnu í skólum á grunn- og leikskólastigi.