Stefna

Meginmarkmið listadeildar er að veita nemendum tækifæri og rými til að þjálfa sig í list- og verkgreinum: tónlist, sjónlist, textíl, smíðum, hönnun, heimilisfræði og leiklist. Leitast er við að kynna fyrir nemendum helstu leiðir og aðferðir í hverri grein fyrir sig. Aðaláhersla er lögð á að hver nemandi finni sína fjöl með því að vinna sjálfstætt að skapandi verkefnum, undir faglegri leiðsögn kennara, þar sem framsetning og góður frágangur er hafður að leiðarljósi.

Sköpunarferlið er í forgrunni í allri vinnu í listadeild. Í gegnum opna þróunnarvinnu ná nemendur tökum á grunnþáttum ferlisins. Nemendur fá þjálfun í hugmyndavinnu, en með því að stunda slíka iðju markvisst, oft og reglulega og á víðum grundvelli verður nemendum tamt að finna lausnir á vandamálum, sjá möguleika til uppbyggingar, nýsköpunar og sjá sig sem gerendur í eigin lífi. Samhliða því ferli eru hugmyndir nemenda einnig framkvæmdar og nemendur læra að vinnusemi og þrautseigja kemur manni á leiðarenda. Í gegnum þetta ferli læra nemendur líka að axla ábyrgð á eigin vinnu.

Ennfremur er eitt af hlutverkum listadeildar er að vera faglega leiðandi í skólastarfi alls skólans og fléttast kennslan inn í starf leik- og grunnskóladeildar skólans þar sem kennsla og áherslur taka mið af aldri og þroska nemenda. Samþætting námsgreina er ofarlega á baugi í starfi skólans og þar getur listadeildin verið með mikilvægt framlag. Leitast er við að tengja viðfangsefni leik- og grunnskóladeildar saman við list- og verkgreinar á skemmtilegan og skapandi hátt, t.d. í gegnum skólaskemmtun og önnur tækifæri.

Veigamesta verkefni undanfarinna þriggja ára hefur falist í því að móta starf deildarinnar og ýta því úr vör með góðri aðkomu Benedikts H. Hermannssonar að starfinu. Veturinn 2019-2020 höldum við áfram því góða starfi og byggja upp framtíðargrundvöll fyrir deildina. Haldið verður áfram að laga starf tónlistarskólans að annarri starfsemi skólans og eins verður haldið áfram að leita leiða til að víkka út starfsemi deildarinnar eins og kostur er.

 Lögð er einnig áhersla á námskeiðahald í fleiri greinum en tónlist, sem nýtist flestum bæjarbúum.

 Vörður fyrir listadeild 2019-2020

 • Innleiða Uppeldi til ábyrgðar í kennslu og starfi innan deildarinnar.
 • Leiða faglega listrænt starf í Seyðisfjarðarskóla og hafa frumkvæði að samþættingu námsgreina, skapandi vinnu og sjálfbærninámi.
 • Bjóða upp á hefðbundið tónlistarnám þar sem stefnt er að stigsprófum.
 • Bjóða upp raftónlistarnám og skapandi tónlistanám.
 • Starfa að verkefnum og vera sýnileg innan í leik- og grunnskóladeildar og í Skólaseli.
 • Bjóða upp á listnám utan hefðbundinnar skólagöngu, fyrir börn og fullorðna.
 • Styðja við dans- og leiklistarkennslu í skólanum.
 • Þróa og efla kennslu í stafrænni miðlun
 • Yfirfara kennsluefni í textíl- og sjónlistum, tækjabúnað og kennslustofur listadeildar.
 • Starfa í nánu samstarfi við Skaftfell menningarmiðstöð, Lunga skólann og fleiri stofnanir um þróun deildarinnar. Listamenn á vegum Skaftfells munu eftir sem áður geta átt í samstarfi við skólann um verkefni samkvæmt samningi þar um.
 • Listadeild tekur eftir sem áður þátt í verkefninu List í ljósi.
 • Listadeild Seyðisfjarðarskóla stefnir að að vera öðrum til fyrirmyndar hvað snertir skapandi vinnu í skólum á grunn- og leikskólastigi.