Haustið 2016 hófst skólastarf í sameinuðum þriggja deilda skóla undir nafninu Seyðisfjarðarskóli,
Skiptist hann í grunnskóladeild, leikskóladeild og listadeild. Að auki er skipulögð stoðdeild. Yfirskrift skólastarfsins er að í hverjum nemenda búi fjársjóður. Hlutverk skólans er að þroska þann sjóð, mennta ábyrga, hæfa og skapandi einstaklinga í samvinnu við heimilin og nánu samstarfi deildanna, í samræmi við aðalnámskrá leik-og grunnskóla, lög og reglugerðir. Í skólastefnu kemur fram að leiðarljós starfsins sé góð samvinna, lýðræði og jafnrétti og jafnramt að sköpunarkraftur, sjálfbærni, fjölbreytileiki og gagnrýnin hugsun einkenni skólastarf í öllum deildum.
Sameining skólanna var viðamikið verkefni en samstarf deildanna um útfærslu skólastefnu og þróun starfshátta í skólanum er þó verkefni sem lýkur í eðli sínu aldrei.
Á Seyðisfirði hefur verið reglulegt grunnskólahald fyrir börnin í bænum frá árunum 1881-1882. Glæsilegt skólahúsið sem í daglegu tali kallast Gamli skóli, kom tilhoggið frá Noregi og var reist á þremur mánuðum árið 1907. Svokallaður Nýi skóli eða rauða byggingin austan megin við Sólveigartorg var tekið í notkun árið 1986. Rauða húsið hýsir stofur undir list- og verkgreinar og má því kalla listadeild en þar er einnig að finna sameinað bókasafn bæjarins og skólans.
Leikskólinn Sólvellir var tekinn í notkun árið 1974. Húsið var byggt sem fyrsti áfangi að þriggja deilda leikskóla og hægt er að byggja við það frá báðum hliðum eftir þörfum. Árið 2009 var byggt við húsið og starfsmannaaðstöðu komið fyrir í nýjum hluta, en í gamla húsinu var þriðja deildin tekin í notkun. Húsið hönnuðu þeir Ásmundur Jóhannsson, Jón Kaldal og Jón Róbert Karlsson, teiknistofunni Staðli.
Þegar leikskólinn opnaði var hann ekki fullgerður innandyra, lóðin var fullgerð. Lóðina hannaði Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt. Efnt var til samkeppni um nafn á skólann og varð nafnið Sólvellir fyrir valinu. Í upphafi var leikskólinn rekinn af kvenfélagi Seyðisfjarðar og bæjarsjóði. Bæjarsjóður byggði húsið og greiddi laun starfsmanna. Kvenfélagið hins vegar réði starfsfólk og útbjó leikföng á vinnufundum sem haldnir voru viku eða hálfsmánaðarlega. Einnig voru farnar ýmsar fjáröflunarleiðir til þess að afla fjár til leikfangakaupa. Árið 1980 yfirtók bæjarsjóður alfarið rekstur leikskólans.
Tónlistarfélag Seyðisfjarðar er stofnað fyrir árið 1969, en nokkrar tilraunir voru gerðar til að stofna tónlistarskóla á Seyðisfirði á seinni hluta síðustu aldar. Tónlistarlíf í sveitarfélaginu hefur löngum verið öflugt og m.a. samofið skólastarfi barnaskólans og fyrir hvatningu þjóðþekktra tónlistarmanna sem hér hafa búið. Af heimildum má ráða að tónlistarskóla hafi verið komið á fót árið 1969 því Garðar Cortes er í þeim titlaður skólastjóri Tónlistarskóla Seyðisfjarðar sem hann var í hálft ár það ár. Á árunum 1973-74 var tónlist kennd í félagsheimilinu Herðubreið og hefur það verið svo til ársins 1976 en þá var Gylfi Gunnarsson tekinn til starfa sem skólastjóri Tónlistarskólans sem starfræktur var í Steinholti. Í dag er tónlistarskólinn hluti af listadeild Seyðisfjarðarskóla og fer starfsemin fram í húsnæði annara deilda Seyðisfjarðarskóla, fyrst og fremst í húsnæði grunnskóladeildar.