Saga skólans

Haustið 2016 hófst skólastarf í sameinuðum þriggja deilda skóla undir nafninu Seyðisfjarðarskóli. 

Saga skólans

Skiptist hann í grunnskóladeild, leikskóladeild og listadeild. Að auki er skipulögð stoðdeild. Sýn skólans er sú að í hverjum nemenda búi fjársjóður. Hlutverk skólans er að þroska þann sjóð, mennta ábyrga, hæfa og skapandi einstaklinga í samvinnu við heimilin og nánu samstarfi deildanna, í samræmi við aðalnámskrá leik-og grunnskóla, lög og reglugerðir. Í nýrri skólastefnu kemur fram að leiðarljós starfsins sé góð samvinna, lýðræði og jafnrétti og jafnramt að sköpunarkraftur, sjálfbærni, fjölbreytileiki og gagnrýnin hugsun einkenni skólastarf í öllum deildum.

Sameining skólanna er viðamikið þróunarverkefni, en gera má ráð fyrir að helstu markmið náist smátt og smátt á þremur til fimm árum. Samstarf deildanna um útfærslu skólastefnu og þróun starfshátta í skólanum er þó verkefni sem lýkur í eðli sínu aldrei.

Á Seyðisfirði hefur verið reglulegt grunnskólahald fyrir börnin í bænum frá árunum 1881-1882. Glæsilegt skólahúsið sem í daglegu tali kallast Gamli skóli, kom tilhoggið frá Noregi og var reist á þremur mánuðum árið 1907, en svokallaður Nýji skóli eða rauða byggingin austan megin við Sólveigartorg var tekið í notkun árið 1986. Rauða húsið hýsir stofur undir list- og verkgreinar og má því kalla listadeild en þar er einnig að finna sameinað bókasafn bæjarins og skólans.

Leikskólinn Sólvellir var stofnaður árið 1974. Leikskóladeildin starfar í anda hugsmíðahyggju þar sem leikurinn er þungamiðja starfsins. Í leikskóladeildinni eru börn á aldrinum 1-5 ára, þeim er skipt upp í þrjá meginhópa; Álfhóll er deild eins ár barna. Dvergasteinn kallast deild 2-3 ára barna og Vinaminni er deild barna á aldrinum 4-5 ára barna. Þessum hópum er skipt eftir aldri og verkefnum í smærri einingar. Í boði er sveigjanlegur dvalartími.