Námsmat

Frá og með hausti skólaárið 2023-2024 verður námsmat í skólanum með breyttu sniði.  

Markmið með breytingunum er í aðalatriðum að bæta skipulag náms og námsumhverfi nemenda. Stefnt er að því að tengja námsmatið betur við hæfniviðmið Aðalnámskrár grunnskóla og þannig verði það leiðbeinandi fyrir nemendur og gerir þeim kleift að setja sér markmið um nám sitt. Matið á einnig að auðvelda kennurum, nemendum og foreldrum að meta framfarir nemenda.

Í Aðalnámskrá grunnskóla er mikil áhersla á hæfninám, það er að nemendur öðlist hæfni sem felur í sér þekkingu og færni sem þeir geta yfirfært og beitt í nýjum aðstæðum og þannig skapað nýja þekkingu. Markmiðið er að nemendur séu þannig búnir undir líf og starf í heimi sem tekur stöðugum breytingum. „Hæfni er þannig meira en þekking og leikni, hún felur einnig í sér viðhorf og siðferðisstyrk, tilfinningar og sköpunarmátt, félagsfærni og frumkvæði“ (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011, bls. 25).

Markmiðssetning og staða nemenda

Með hæfninámi er gerð krafa um virk samskipti og aukna endurgjöf til nemenda. Þannig er hægt að meta námsframvindu og árangur til að fá skýra mynd af stöðu nemandans. Í nemenda- og foreldraviðtölum að hausti er farið yfir markmið komandi skólaárs og annað sem viðkemur námið og líðan nemandans. Þetta er kjörið tækifæri fyrir alla sem koma að námi einstaklingsins að ræða væntingar og skoðanir varðandi námið. Í viðtalið á vorönn er farið yfir hæfnikort nemandans, frammistöðu og hæfni í einstaka námsgreinum og rætt um almennt gengi í náminu.

Hæfnikort

Nemendur og foreldrar hafa aðgang að svokölluðu hæfnikorti í öllum námsgreinum inni í Mentor. Út frá hæfnikorti nemenda er kennslan skipulögð og getur því kennari metið hvar hver nemandi er staddur hverju sinni. Þannig er auðvelt að sjá styrkleika nemenda en einnig greina hvaða hæfniviðmið viðkomandi þarf að vinna betur með.

Skil á námsmati til nemenda og foreldra

Tvisvar á skólaárinu fá nemendur formleg skil á námsmati. Foreldrar og forráðamenn geta þó ávallt fengið upplýsingar um stöðu síns barns, í samvinnu við umsjónarkennara og í gegnum hæfnikort nemenda á Mentor.

Á skólaslitum í lok skólaárs fær nemandi vitnisburðarblað þar sem koma fram upplýsingar um stöðu í einstaka greinum. Nemendur í 1. – 9. bekk fá framvindumat sem unnið er eftir greinanámskrá skólans. ​

Framvindumatið er eftirfarandi:

Góða framvinda: Nemandi sinnir námi sínu vel, fylgir viðmiðum námskrár og sýnir framfarir í námi. Samvinna heimilis og skóla mikilvæg.

Hæg framvinda: Nemandi sinnir námi sínu sæmilega, þarf að bæta sig í viðkomandi fagi og sýnir hægar framfarir í námi. Samvinna heimilis og skóla sérstaklega mikilvæg.

Í hættu að ná ekki lágmarshæfni: Nemandi þarf sértæk úrræði til að ná viðmiðum námskrár. Samvinna heimilis og skóla mjög mikilvæg og nauðsynleg.

Í lok skólaárs fá nemendur einnig mat á lykilhæfni þar sem umsagnirnar eru; framúrskarandi, hæfni náð, á góðri leið og þarfnast þjálfunar.

Í aðalnámskrá er skólum gert að meta nemendur við lok 10. bekkjar samkvæmt stöðluðum matskvarða sem skilgreindur er í 6 þrepum; A, B+, B, C+, C, D þar sem A lýsir framúrskarandi hæfni, B lýsir góðri hæfni, C sæmilegri hæfni og D hæfni sem nær ekki viðmiðum sem lýst er í C.

Einnig má nota hann við lok 4. og 7. bekkjar og almennt í námsmati. Kvarðann má laga að þörfum skólans og aðstæðum hverju sinni.

Lykilhæfni

Lykilhæfnin skv. aðalnámskrá grunnskóla skiptist í fimm þætti:

Tjáning og miðlun - Hæfni nemenda til að tjá hugsanir sínar, tilfinningar og skoðanir munnlega, skriflega og á annan hátt. Hæfni til að miðla þekkingu og leikni sinni og flytja mál sitt skýrt og áheyrilega og taka þátt í samræðum og rökræðum.

Skapandi og gagnrýnin hugsun - Skapandi hugsun og frumkvæði í efnistökum og úrvinnslu. Hæfni nemenda til að nota þekkingu og leikni, draga ályktanir, áræðni til að leita nýrra lausna og beita gagnrýninni hugsun og röksemdafærslu.

Sjálfstæði og samvinna - Hæfni til að vinna sjálfstætt, í samstarfi við aðra og undir leiðsögn.

Nýting miðla og upplýsinga - Hæfni nemanda til að nýta margvíslega miðla í þekkingarleit, úrvinnslu og miðlun og nýta upplýsingar á ábyrgan, skapandi og gagnrýninn hátt.

 

Ábyrgð og mat á eigin námi - Hæfni nemanda til að bera ábyrgð á eigin námi og leggja mat á eigin vinnubrögð og frammistöðu.

 

Þeir sem vilja vita meira um námsmatið geta lesið sér til á slóðinnihttp://vefir.nams.is/namsmat/