Námsmat

Þrisvar á skólaárinu fá nemendur formlegan vitnisburð um námsframmistöðu sína, þ.e. í nóvember, febrúar og í skólalok og þurfa foreldrar/forráðamenn að kvitta fyrir að hafa séð vitnisburðinn. Fyrstu fjórir árgangarnir fá umsagnir í öllum greinum. Í eldri bekkjum er gefin annareinkunn í tölum. Þeir nemendur sem eru með aðlagað námsefni  eru  með  stjörnumerkta  einkunn  eða  umsögn.

Á undanförnum árum hefur námsmat þróast á þann hátt að frammistaða nemenda er metin út frá fleiri þáttum en fyrrum tíðkaðist. Árangur í prófum er ekki eins stór hluti einkunnar og áður heldur hefur símat fengið aukið vægi. Þannig er nú algengt að leiðarbækur séu til vitnis um verkefni nemenda auk þess sem mörg smærri verkefni eru metin í stað prófa í annarlok, eða a.m.k. til jafns við þau. Sumir kennarar meta frammistöðu í tímum og ástundun einnig inn í einkunnir. Í öllum tilfellum ber kennurum að tilkynna nemendum hvernig er staðið að námsmati í hverri grein og hvað liggur til grundvallar einkunnum.

Upplýsingar um ástundun nemenda eru sendar út til foreldra mánaðarlega. Þær þarf að kvitta fyrir eða staðfesta móttöku með tölvupósti.

Með  nýrri  aðalnámskrá  er  skólum  gert  að  meta  nemendur  við  lok  grunnskóla, þ.e. við lok 10. bekkjar, samkvæmt stöðluðum matskvarða:  Innan hvers námssviðs er sérstakur matskvarði skilgreindur í 6 þrepum, A, B+, B, C+, C, D. Matskvarðann ber að nota við brautskráningu nemenda úr grunnskóla. Einnig má nota hann við lok 4. og 7. bekkjar og almennt í námsmati. Kvarðann má laga að þörfum skólans og aðstæðum hverju sinni.

Nemendur í 4. og 7. bekk taka samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði í lok september. Nemendur í 9. bekk taka samræmdu prófin í  mars, þá er prófað í íslensku, stærðfræði og ensku.  Samræmdu prófin eru rafræn og því unnin á tölvu eða spjaldtölvu. Samræmd próf eru ekki lokapróf heldur er þeim m.a. ætlað að veita upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda og hvernig skólar standa, miðað við aðra skóla landsins, í þeim námsgreinum sem prófað er úr.

Þeir sem vilja vita meira um námsmatið og samræmdu prófin geta lesið sér til  á slóðinni

http://vefir.nams.is/namsmat/