Eineltisáætlun

Seyðisfjarðarskóli er Olweusarskóli og stuðlar að jákvæðum samskiptum milli nemenda, kennara og foreldra. Gott og uppbyggilegt samstarf allra sem koma að uppeldi barna er mikilvægur þáttur í góðu skólastarfi. Í Seyðisfjarðarskóla er einelti ekki liðið í neinni mynd, hvorki meðal nemenda né starfsfólks. Einkunnarorð Seyðisfjarðarskóla, í hverju barni býr fjarsjóður, eru höfð að leiðarljósi í öllu starfi skólans.

Skilgreining á einelti

Einstaklingur er lagður í einelti ef hann verður fyrir endurteknum, neikvæðum verknaði eins eða fleiri einstaklinga yfir ákveðið tímabil. Einelti er árásarhneigt eða illa meint atferli, endurtekið yfir ákveðinn tíma þar sem ójafnvægi afls og/eða valds er í samskiptum. Einelti hefur ýmsar birtingarmyndir, til dæmis:

Félagslegt einelti: einstaklingur er skilinn út undan í leik, mætir neikvæðum svipbrigðum s.s. illu auga eða afskiptaleysi.

Andlegt einelti:  einstaklingur er þvingaður til þess að gera eitthvað sem stríðir gegn vilja, réttlætiskennd eða sjálfsvirðingu viðkomandi.

Líkamlegt einelti: einstaklingur verður fyrir barsmíðum eða líkamlegu ofbeldi.

Munnlegt einelti: einstaklingur er uppnefndur, honum strítt eða niðurlægjandi athugasemdir eru látnar falla.

Rafrænt einelti: einstaklingur fær illkvittin skilaboð í gegnum samskiptamiðla eða með öðrum rafrænum hætti, svo sem í tölvupósti, eða á samskiptamiðlum, í smáskilaboðum eða trúnaðargögnum um hann dreift.

Eineltisáætlun, fæðirit