Leikskóladeild

Í skólanum gilda skólareglur gegn einelti. Félagstengslakönnun er lögð fyrir eldri nemendur. Árlega er haldinn vinadagur auk þess sem unnið er með lífsleikni og gildi eins og virðingu, vináttu og samkennd. Nemendur taka þátt í að móta reglur um samskipti. Áhersla er lögð á virkt eftirlit á öllum svæðum deildarinnar úti og inni. Umræður um einelti fara fram á skipulagsdögum, starfsmannafundum og deildarfundum auk þess sem eineltisteymi er starfrækt innan skólans.  Eineltismál sem upp koma í leikskóladeild eru rædd á vikulegum fundum deildarstjóra og á deildafundum. 

 Aðgerðir vegna einstaklingsmála í leikskóladeild

Allar ábendingar um einelti eru teknar alvarlega. Greina þarf og uppræta þá hegðun sem í eineltinu felst og hjálpa þeim aðilum sem eiga hlut að máli. Grunur um einelti fer í þann farveg að viðkomandi deildarstjóri er látinn vita. Ábendingar geta borist frá foreldri, starfsfólki eða barni. Deildarstjóri leggur mat á málið samkvæmt skilgreiningu skólans um einelti. Deildarstjóri aflar upplýsinga frá starfsfólki og öllum þeim sem koma að leikskólastarfinu og ákveður næstu skref eftir að hafa ráðfært sig við eineltisteymi skólans.

 Meðferð eineltismála í leikskóladeild

  1. Ef grunur um einelti kemur upp eru upplýsingar um málið skráðar eftir þeim sem tilkynnir, svo sem dagsetning, málsaðilar og stutt lýsing.
  2. Deildarstjóri kannar mál og metur hvort um einelti sé að ræða.
  3. Ef grunur um einelti er staðfestur fer fram viðtal við þolendur sem og gerendur málsins. Þá er haft samband við foreldra og þeir upplýstir um að viðtal hafi farið fram. Ef grunur um einelti er ekki á rökum reistur er vöktun afturkölluð.
  4. Ef eineltið er viðvarandi eftir ofantaldar aðgerðir fara fram viðtöl við geranda ásamt foreldrum og við þolanda ásamt foreldrum.
  5. Ef ekki tekst að uppræta eineltið eftir ofantaldar aðgerðir er málinu vísað til eineltisteymis skólans og þaðan til nemendaverndarráðs sem leitar þeirrar aðstoðar sem þörf er á til að stöðva eineltið.

 Deildarstjóri getur ávallt leitað aðstoðar eineltisteymis um úrlausn mála. Mikilvægt er að upplýsa foreldra/forráðamenn um stöðu mála.