Skólahjúkrunarfræðingur boðar nemendur í viðtöl og skoðanir skv. áætlun. Ef eitthvað athugavert kemur upp í skoðunum hjá hjúkrunarfræðingi mun því verða fylgt eftir með áframhaldandi viðtölum í skólanum eða með tilvísun til heimilislæknis, allt eftir þörfum og í samráði við nemandann og foreldra hans.
Lyfjagjafir barna í skólanum
Nemendaverndarráð setur vinnureglur varðandi lyfjagjafir barna í skólanum. Vinnulagið er unnið með hliðsjón af tilmælum frá Landlæknisembættinu. Börn skulu ekki hafa nein lyf undir höndum í skólanum nema í algjörum undantekningatilfellum. Slíkar lyfjagjafir geta t.d. verið insúlíngjafir sem barnið sér sjálft alfarið um. Undir engum kringumstæðum á barn að vera sendiboði með lyf. Þurfi barn nauðsynlega að taka inn lyf á skólatíma er foreldrum bent á að snúa sér til umsjónarkennara barnsins sem kemur málinu í réttan farveg. Að gefnu tilefni skal tekið fram að skólinn sér nemendum ekki fyrir verkjatöflum nema í algjörum neyðartilfellum. Hafa skal samband við forráðamann áður en nemanda er gefið verkjalyf.
Fræðsla
Á Seyðisfirði er unnið út frá skipulagi sem Þróunarstofa heilsugæslunnar ásamt landlæknisembættinu setur um fræðslu í skólum. Skipulögð fræðsla er í öllum bekkjum grunnskóladeildar.
Unnið er með 6H heilsunnar sem eru: hollur matur, hreinlæti, hreyfing, hvíld, hamingja og hugrekki. Tölustafurinn 6 stendur svo fyrir kynfræðsluna sem veitt er í 6., 9. og 10.bekk. Foreldrar fá upplýsingar um fræðsluefni sem fjallað er um og geta fylgst með í gegnum Heilsuveru Þannig viljum við fá fjölskylduna til að halda áfram að fræða og fræðast um leið um þau málefni sem við höfum rætt um í skólanum.