Hlutverk okkar

Hlutverk eineltisteymisins og starfsfólks í skólanum

Í eineltisteymi skólans sitja lykilmenn Olweusaráætlunarinnar í leik- og grunnskóladeild auk stjórnenda allra deilda.  Teymið ber ábyrgð á að unnið sé samkvæmt eineltisáætlun skólans og að brugðist sé við tilkynningum um einelti samkvæmt fyrirfram ákveðnu vinnuferli. Teyminu ber að grípa inn í framvindu mála og setja rétta stefnu sé ástæða til. Þá ber teymið ábyrgð á að nemendakönnun sé lögð fyrir árlega og tengsla- eða vinakönnun í öllum nemendahópum að minnsta kosti einu sinni til tvisvar á ári. Í kjölfarið skal tryggja að niðurstöður kannanna séu kynntar fyrir starfsfólki, nemendum og foreldrum. Teymið sér til þess að foreldrafundir séu haldnir og að eineltisáætlun sé vel kynnt fyrir foreldrum og grenndarsamfélaginu. Lykilmenn halda utan um og skipuleggja námsdag gegn einelti árlega og safna saman hugmyndabanka með verkefnum sem styðja við vinnu gegn einelti. Þá eru lykilmenn og teymið til stuðnings kennurum í vinnu gegn einelti og teymið undirbýr fræðslu fyrir starfsfólk allra deilda. Ef ekki næst að uppræta eineltismál er leitað til Skólaskrifstofu Austurlands.

Hlutverk nemenda

Nemendum ber að temja sér kurteisi, tillitssemi og virðingu í samskiptum. Þeir eiga að vera upplýstir um skólareglur og fylgja þeim. Þá eru þeir hvattir til að vera meðvitaðir um líðan samnemenda sinna og láta sig varða ef þeir verða vitni að neikvæðri hegðun og láta einhvern fullorðinn vita.

Hlutverk foreldra

Foreldrar gegna mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn einelti. Þeim ber að kynna sér eineltisáætlun skólans og fylgjast með samskiptum barna sinna og annarra nemenda. Enginn skal skilinn útundan og mikilvægt er að foreldrar hvetji börn sín til að vera líka með þeim sem lenda í að vera einir. Þá er einnig áríðandi að foreldrar fylgist vel með netnotkun barna sinna og hafi strax samband við starfsfólk skólans ef þeir hafa grun um eða verða varir við að barn sé í vanda.