Nám

Í Seyðisfjarðarskóla eru flestar list- og verkgreinar kenndar í tveimur lotum á öllum skólastigum í grunnskóladeild.
Fyrri lotan er frá skólabyrjun og lýkur 15. janúar. Seinni lotan hefst 16. janúar og nær til lok skólaársins. Kennsla fer að mestu leyti fram í Rauða skóla sem er fyrir vikið verk og listgreinahúsið okkar.

Nemendur í grunnskóladeild fá vikulega kennslu, 60 mín kennslustund í u.þ.b. 16 skipti, í sjónlist, textíl, heimilisfræði, smíði og hönnun. Þegar fyrri lotunni er lokið skiptir nemendahópur um námsgrein. Kennarar úr listadeild kenna einnig vikulega í leikskóladeild og taka verkefnin sem eru unnin þar mið af aldri og þroska nemenda.

Ennfremur fá nemendur á yngsta stigi grunnskóladeildar þjálfun í leiklist vikulega (40 mín kennslustund) í u.þ.b. 11 skipti sem fylgir þriggja anna kerfi. Nemendur á miðstigi fá aftur á móti þjálfun í leiklist yfir allt skólaárið. Kennsla í leiklist og dans fer að mestu leyti fram í Gamla skóla og íþróttahúsi.

Val á unglingastigi er kennt tvisvar í viku á vetrar- og vorönn. Í vali er nemendum gefið mikið svigrúm til að þjálfa sjálfstæð vinnubrögð og byggir námið á að nemendur velja sjálfir verkefni út frá eigin áhugasviði. Þegar því er lokið er farið í dýpri hugmyndavinnu varðandi útfærslu, sett markmið, vinnan skipulögð og framkvæmd. Nemendur bera sjálfir ábyrgð á því að ná markmiðum sínum með faglegum stuðningi frá kennurum. Verkefnaskil eru við annarlok á hvorri önn og kynna þá nemendur valin verkefni.

Val á miðstigi er kennt tvisvar í viku, allt skólaárið og byggir á því að nemendur velja sjálfir verkefni út frá fyrirfram ákveðnum smiðjum. Á fyrstu önninni gátu nemendur valið á milli kofasmíði og skrautskrift á miðvikudögum en stuttmyndagerðar og málunar á föstudögum. Hverri önn lýkur með sameiginlegri kynningu á helstu verkefnum. Í annarbyrjun er haldinn fundur og farið yfir stöðuna í hverri smiðju fyrir sig. Í framhaldi verður aftur hægt að bjóða upp á sömu smiðjur ef nemendur hafa áhuga eða bjóða upp á nýjar smiðjur. Smiðjurnar virka sem rammar utan um frjálst val. Þegar nemandi hefur til dæmis valið sér að fást við myndbandsgerð hefur hann frjálsar hendur með hvernig myndband hann gerir, með hverjum það er gert o.s.frv. Með því að setja námið inn í smiðjuformið verður til ákveðin afmörkun á verkfærum og hjálpar það nemendum að ná tökum á annars frjálsum efnistökum.

Annað nám sem listadeild heldur utan um eru vikulegar æfingar hjá Kór Seyðisfjarðarskóla. Listadeildin er líka mikilvægur þátttakandi í undirbúningi og skipulagningu á skólaskemmtun Seyðisfjarðarskóla sem fer fram árlega á vorönn.

Í listadeild er kennt eftir aðalnámskrá grunnskóla og kennsluáætlanir fyrir hverja námsgrein má skoða á Mentor.