Nám

skolaskemmt_listadeildÍ listadeild fer fram kennsla í listgreinum (tónlist, sjónlistum og sviðslistum) og verkgreinum (textílmennt, smíði og hönnun). Veturinn 2017-2018 er fyrsti veturinn þar sem hugmyndafræði sameinaðs skólastarfs með öflugri listadeild sem hluta af metnaðarfullu skólastarfi er hrint í framkvæmd. Margar nýjungar líta dagsins ljós og skerpt verður á mörgum þáttum starfsins og því góða starfi sem hefur verið unnið innan skólans hjálpað að þróast á eigin forsendum og blómstra.

 Tónlist

Hljóðfæra- og tónfræðinám, sem hingað til hefur verið á vegum Tónlistarskólans, mun fara fram í húsnæði Listadeildar. Einkatímar í hljóðfæranámi munu fara fram á skólatíma þegar kostur er á því, auk tónfræðitíma sem verða bæði bóklegir og verklegir.

Einnig verður tónlistarnám á stundaskrá grunnskóladeildar, þar sem nemendahópar stunda tónlist á fjölbreyttan hátt. Nemendur á yngsta stigi fara í kórtíma, þar sem áhersla er lögð á röddina og hlustun. Kórstarf byggist á samheldni og trausti og gefur yngstu nemendunum skýran ramma utan um viðfangsefni sín á tónlistarsviðinu. Guðrún Katrín Árnadóttir Auk kórstarfsins fara nemendur á yngsta stigi í tónlistartíma í smærri hópum þar sem fengist er við sönglagasmíðar, þar sem fengist er við að ná tökum á skapandi vinnubrögðum.

Meiri áhersla er lögð á víðtækari tónlistarsköpun með nemendum á miðstigi, en á því aldursstigi eru allir tónlistartímar undirlagðir af markvissri vinnu við lagasmíðar, spuna, hljóðupptökur osfv.

Á unglingastigi er tónlist hluti af vali þar sem nemendur vinna verkefni algjörlega eftir eigin höfði, undir leiðsögn kennara með fagþekkingu á hverju sviði. Þannig er grunnhugsunin í tónlistarnámi skólans að unnið sé á markvissan hátt að því að þjálfa skapandi vinnubrögð og að verkefnaramminn utan um vinnuna víkki stöðugt út eftir því sem þroski og geta barnanna eykst.

 Sjónlistir

Myndlistarnám skólans hefur síðustu ár farið fram í frábæru samstarfi við Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi. Samstarfinu verður ekki haldið áfram á sama átt og verið hefur en Listadeild hefur fengið til liðs við sig Þórunni Eymundardóttur, sem hefur kennt í skólanum á vegum Skaftfells og mun hún kenna myndlist auk þess sem hún mun sjá um heimilisfræðikennslu.

Upplýsingar um námið og mismunandi viðfangsefni

Menntun í listum á að stuðla að því að nemendur öðlist hæfni til að takast á við ófyrirséða framtíð á skapandi hátt, sjá ný mynstur og hugsa í lausnum, þroska persónulega tjáningu og smekk. (úr aðalnámskrá 2015, bls. 144) 

  • Nemendur á yngsta stigi fá þjálfun í notkun mismunandi listmiðla og tækni auk þess sem þau læra grunn atriði í lita- og formfræði og myndbyggingu. Áhersla er lögð á leik og verkefnavinnu með það markmið að nemendur öðlast færni til að nota mismunandi efnivið, kynnist skapandi vinnubrögðum og efli sjálfstraust sitt.
  • Á miðstigi er unnið með kveikjur, nemendur þjálfast í skapandi vinnubrögðum og hugmyndavinnu og að velja viðeigandi miðla og efni. Lagt er upp úr að nemendur kynnist eigin sköpunargáfu auk þess sem lögð er áhersla á að kynna sögulegan bakgrunn sjónlista og hugtök. Markmiðið er að örva forvitni og athafnaþrá nemenda og stuðlar að frumkvæði einstaklingsins.
  • Á unglingastigi eru sjónlistir hluti af vali þar sem nemendur vinna verkefni algjörlega eftir eigin höfði, undir leiðsögn kennara. Markmiðið er að nemendur öðlist góða færni til að vinna sjálfstætt, þau þjálfist í að tjá, greina og móta eigin hugmyndir og að beita sömu tækni til að greina og skilja umhverfi sitt.