Múlaþing rekur leikskóladeild fyrir börn á aldrinum tólf mánaða til sex ára.
Leikskóladeildin starfar samkvæmt lögum um leikskóla nr. 90/2008, reglugerð um starfsemi leikskóla og Aðalnámskrá leikskóla. Námskránni er ætlað að vísa ólíkum hagsmunaaðilum í skólasamfélaginu veginn hvað varðar stefnu og hugmyndafræði leikskólastarfs. Leikskólinn er fyrsta skólastigið í íslensku skólakerfi og annast að ósk foreldra uppeldi, umönnun og menntun barna á leikskólaaldri.
Umsókn og innritun
Sækja má um leikskóla frá fæðingu barns, eða strax og kennitala þess hefur verið skráð. Sótt er um á heimasíðu Múlaþings.
Skilyrði fyrir inngöngu í leikskóla er að barn eigi lögheimili í Múlaþingi. Hægt er að sækja um, þótt lögheimili sé annars staðar. Úthlutunin er einnig háð því skilyrði að foreldri sé ekki í vanskilum með leikskólagjöld.
Víkja má frá meginreglum um inngöngu nemenda í leikskóla ef sérstakar aðstæður krefjast þess. Um undanþágur þarf að sækja til fjölskylduráðs.
Börn eru innrituð í leikskóla eftir aldri þannig að eldri börn ganga fyrir þeim yngri. Úthlutun á leikskólavistun er árið um kring eftir því sem pláss leyfir. Foreldrar eru þó hvattir til að sækja um leikskólavistun fyrir 1.maí ár hvert þar sem vetrarskipulag næsta árs er gert í samræmi við umsóknir sem hafa borist á þeim tíma.
Þegar barn hefur fengið inngöngu í leikskóla hefur leikskólastjóri samband við foreldra til að ákveða hvenær leikskólagangan hefst.
Vakin skal athygli á því að við innritun barns í leikskóla getur þurft að taka tillit til þess aldursviðmiðs og tíma sem er laus í leikskólum hverju sinni.
Stefna Múlaþings er að öll börn með lögheimili á Seyðisfirði eigi, frá tólf mánaða aldri til grunnskólaaldurs, kost á dvöl á leikskóla hans.
Forgang í leikskóla eiga:
Börn einstæðra foreldra
Börn í elsta árgangi leikskóla
Börn geta fengið forgang samkvæmt ákvörðun leikskólastjóra, vegna sérþarfa eða félagslegra erfiðleika. Beiðni um forgang þarf að fylgja bréf frá barnaverndarnefnd eða fulltrúa hennar, félagsráðgjafa, lækni eða öðrum eftir því sem við á og leikskólastjóri óskar eftir. Ef foreldri/forráðamaður hefur athugasemdir við niðurstöðu leikskólastjóra má vísa erindinu til fjölskylduráðs
Leikskólagjöld
Múlaþing greiðir að stærstum hluta kostnað við dvöl barna í leikskóladeildinni. Foreldrar greiða leikskólagjöld samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins og því sem dvalarsamningur þeirra kveður á um. Einnig greiða foreldrar fyrir fæði barna sinna samkvæmt gjaldskrá Múlaþings.
Leikskólagjöld skulu greidd fyrirfram, eigi síðar en 10. hvers mánaðar. Innheimt er sérstakt gjald ef foreldrar virða ekki umsaminn leikskólatíma.
Leikskólagjald, fæðisgjald og systkinaafláttur á hverjum tíma er samkvæmt gjaldskrá sem birt er á heimasíðu sveitarfélagsins.
Leikskóladeildin er lokuð í 5 vikur vegna sumarleyfa. Leikskólagjöld falla niður í sumarlokun leikskólanna en leyfilegt er að fá leikskólagjöld felld niður í allt að 6 vikur, eða 30 virka daga, vegna sumarleyfa á ári. Því er hægt að sækja um lengra gjaldfrítt sumarleyfi annað hvort í tengslum við sumarlokun eða ef leyfið er samfellt á öðrum tíma. Ef sótt er um samfellt leyfi á öðrum tíma má nýta þá daga sem eftir eru, allt að 30 dögum. Ekki er hægt að sækja tvisvar eða oftar um niðurfellingu vegna sumarleyfa utan sumarlokunar.
Hægt er að fá fæðiskostnað felldan niður ef nemandi er fjarverandi 10 skóladaga samfellt ef sótt er um fyrirfram. Heimilt er að fella niður fæðiskostnað vegna langtíma veikinda.
Gjaldskráin er tvískipt
Almennt gjald fyrir hjón og sambúðarfólk.
Forgangsgjald fyrir einstæða foreldra.
Til að greiða forgangsgjald þarf foreldri/forráðamaður að vera skráður einstæður í þjóðskrá.
Leikskólasamningur
Í upphaf leikskólagöngu skal leikskólinn gera skriflegan samning við foreldra. Þar skal kveðið á um dvalartíma, fæðiskaup og fleira. Leikskólasamningur tekur mið af reglum þessum.
Gagnkvæmur uppsagnarfrestur á leikskólaplássi er einn mánuður og miðast við 1. eða 15. hvers mánaðar. Segja skal upp leikskólaplássi hjá leikskólastjóra.
Óski foreldrar eftir breytingum á leikskólasamningi eða fæðiskaupum sækja þeir um hjá leikskólastjóra.
Starfstími og skipulagsdagar
Leikskólinn starfar virka daga frá 7:45 til 16:15. Leikskólinn er lokaður á aðfangadag og gamlársdag.
Leikskólar Múlaþings eru lokaðir vegna starfsmannafunda 10 sinnum á skólaári, tvo tíma í senn ýmist á milli kl. 8-10 eða kl. 14-16 allt eftir aðstæðum hvers skóla. Starfsmannafundir eru skráðir á skóladagatal skólanna.
Starfsdagar leikskólanna eru sex og er leikskólinn lokaður þessa daga. Framkvæmd starfsdaga er alfarið í höndum leikskólastjóra og er þeim ráðstafað á þann veg sem best hentar hverjum skóla. Starfsdagur eru skráðir á skóladagatal skólanna.