Mat í leikskóla

Snemmtæk íhlutun felur í sér að börn fá aðstoð og hjálp sem fyrst á lífsleiðinni og að liðsinni sé veitt áður en vandinn ágerist með hugsanlegum óafturkræfum afleiðingum. Leikskólaárin eru sérlega mikilvæg fyrir snemmtæka íhlutun sem þarf að hefjast um leið og áhyggjur vakna og þarf hún að vera unnin í náinni samvinnu við foreldra.

Foreldrasamtöl eru að jafnaði einu sinni á ári en foreldrar eru hvattir til að hafa samband við deildarstjóra og panta samtal hvenær sem er utan þessa formlega viðtals sem jafnan fer fram í feb./mars. Eins geta kennarar óskað eftir samtali við foreldra ef þeim finnst ástæða til. Samskiptin geta farið fram símleiðis, á fjarfundi eða í fundarrými leikskóladeildar.

Mat á þroska, árangri og framförum barna er reglubundinn þáttur í leikskólastarfinu. Það á sér stað í daglegu starfi með börnunum, í samtali foreldra og kennara og kennara á milli, ásamt formlegum skimunum.

Þau matstæki sem leikskóladeildin notar til að fylgjast með þroska barnanna eru:

1. TRAS er skráning á málþroska 2-5 ára barna, skráð 2x á ári hjá hverju barni. Markmiðið með notkun TRAS er að fagfólk fái yfirsýn yfir málþroskaframvindu og félagsþroska barnanna til að skipuleggja starfið á markvissan hátt. Skráningin tekur yfir:

a. Framburð, orðaforða og setningamyndum

b. Málskilning og málvitund

c. Félagsfærni, tjáskipti og einbeitingu

Réttindi þarf til að nota TRAS.

2. EFI–2 málþroskaskimun er skimun á málskilningi og máltjáningu barna, sem eru á 4. ári. EFI–2 er einfalt í notkun, áreiðanlegt og ekki síst finnst börnunum það skemmtilegt en fyrirlögn tekur u.þ.b. 10 mínútur.

Réttindi þarf til að nota EFI 2.

3. Íslenski málhljóðamælirinn er skimunartækni í iPad og er snemmtæk íhlutun í framburði íslensku málhljóðanna fyrir börn frá 2ja ára aldri.

Réttindi þarf til að nota skimunina.

4. HLJÓM-2 er aldursbundin skimun sem er lögð fyrir í október ár hvert til að meta hljóðkerfis- og málvitund barna í elsta árgangi leikskólans. Í niðurstöðum er hægt að greina þau börn sem eru í áhættu fyrir lestrarerfiðleika síðar meir. Réttindi þarf til að nota Hljóm-2.

5. Smábarnalistinn og Íslenski þroskalistinn.

Réttindi þarf til að nota báða listana.

 

Sjá nánar: Áætlun um innra mat