Grunnskóladeild

Grunnskóladeild

Í skólanum gilda skólareglur gegn einelti. Árlega er lögð fyrir Olweusarkönnun í 4. - 10. bekk. Tvisvar á ári eru tengslakannanir lagðar fyrir í öllum bekkjardeildum og á hverju ári er haldinn námsdagur gegn einelti þar sem nemendur skólans sinna fræðslu um eineltismál í samfélaginu. Áhersla er lögð á öfluga gæslu og samhæft eftirlitskerfi. Reglulega koma saman uppeldisfræðilegir umræðuhópar auk þess sem eineltisteymi er starfrækt innan skólans. Eineltismál sem upp koma í grunnskóladeild eru rædd á fundum starfsfólks og vaktanir skráðar.

 Aðgerðir í hverjum nemendahópi grunnskóladeildar

Á hverju hausti eru kynningafundir fyrir alla forelda þar sem eineltisáætlun skólans er meðal annars kynnt og rætt um jákvæð samskipti og góðan skólabrag. Þá er boðað til foreldrafunda í grunnskóladeild þegar niðurstöður Olweusarkönnunarinnar liggja fyrir eftir áramót. Vikulegir bekkjarfundir eru haldnir í öllum bekkjum grunnskóladeildar þar sem meðal annars er farið yfir eineltishringinn.

 Aðgerðir vegna einstaklingsmála í grunnskóladeild

Allar ábendingar um einelti eru teknar alvarlega, hegðun sem getur bent til eineltis er skráð á þar til gerð eyðublöð og færð umsjónarkennara viðeigandi barns. Þegar grunur um einelti kemur upp er mikilvægt að unnið sé með málið af nærgætni og alúð. Greina þarf og uppræta þá hegðun sem í eineltinu felst og hjálpa þeim aðilum sem eiga hlut að máli. Samkvæmt Olweusaráætluninni eru tekin alvarleg viðtöl við gerendur og þolendur eineltis auk viðtala með foreldrum og þeim nemendum sem málið varðar. Ef þörf krefur eru einnig haldnir fundir með öllum foreldrum í viðkomandi árgangi.

Meðferð eineltismála í grunnskóladeild:

  1. Ef grunur um einelti kemur upp eru upplýsingar um málið skráðar af/eftir þeim sem tilkynnir, svo sem dagsetning, málsaðilar og stutt lýsing.
  2. Umsjónarkennari/deildarstjóri kannar málið og setur vöktun á samskipti meðal starfsfólks.
  3. Ef grunur um einelti er staðfestur í kjölfar vöktunar fer fram viðtal við þolendur sem og gerendur málsins þar sem viðtalsform Olweusaráætlunarinnar er haft til hliðsjónar. Æskilegt er að aðili úr eineltisteymi sé viðstaddur viðtölin. Þá er haft samband við foreldra og þeir upplýstir um að viðtal hafi farið fram. Ef grunur um einelti er ekki á rökum reistur er vöktun afturkölluð.
  4. Ef eineltið er viðvarandi eftir ofantaldar aðgerðir fara fram viðtöl við geranda ásamt foreldrum og við þolanda ásamt foreldrum. Æskilegt er að aðili úr eineltisteymi sé viðstaddur viðtölin. 
  5. Ef ekki tekst að uppræta eineltið eftir ofantaldar aðgerðir er málinu vísað til eineltisteymis skólans og þaðan til nemendaverndarráðs sem leitar þeirrar aðstoðar sem þörf er á til að stöðva eineltið.

 Umsjónarkennari getur ávallt leitað aðstoðar eineltisteymis um úrlausn mála. Mikilvægt er að upplýsa foreldra/forráðamenn um stöðu mála á öllum stigum.