Hefðir og siðir

Afmæli nemenda

Í leikskóladeild gleðjast allir með afmælisbarni hverju sinni og er afmælisbarnið í brennidepli á afmælisdaginn. Nemendur og kennarar fagna með afmælisbarninu og er ekki gert ráð fyrir að foreldrar mæti með veitingar í tilefni afmælisdagsins. Í nónhressingu býður barnið upp á fallega ávaxtaskál/bakka, það fær að hafa kórónu og skikkju, það er flaggað og afmælissöngurinn sunginn.

Dagar myrkurs

Dagar myrkurs eru venjulega eftir miðjan nóvember. Þá leikum við með ljós og skugga og tengjum þennan dag við dag íslenskrar tungu.

Sparifatadagur

Í tilefni af lýðveldisdeginum 1. des. er haldinn sparifatadagur  í leikskóladeildinni.

Jólasveinaútgerð á aðfangadag

Í desember taka foreldrar leikskólabarna að sér að aðstoða jólasveinana við jólapakkaútburð. Pökkum er komið í skólann viku fyrir jól og á aðfangdag er þeim síðan komið á réttan stað, fyrir lítið gjald.

Kakóferð

Í desember fara börn og kennarar saman í kakóferð á kaffihús og drekka í sig jólastemmninguna með kakó, jólakökum og jólasöngvum.

Öskudagurinn

Öskudagsball er haldið á öskudaginn. Börn og starfsfólk grímuklæðast, kötturinn er sleginn úr kassanum og dansað og sungið.

Litlu jólin

Litlu jólin eru haldin hátíðleg. Börn og starfsfólk eiga saman góðan dag, syngja og dansa í kringum jólatré, hlusta á jólasögu o.fl. Jólasveinar koma í heimsókn og færa börnunum glaðning. Í hádeginu er borðaður jólamatur.

Útskriftarferð elstu nemenda

Útskriftarferð elstu nemenda er farin á hverju vori.  Kennarar fara með börnunum upp í Hérað í rútu.  Þar er leikskóli heimsóttur, farið á Byggðasafn Austurlands, leikið Selskóg og grillað saman. 

Sólvallahátíð og útskrift elstu nemenda

Fyrir sumarfrí ár hvert eru elstu nemendur útskirfaðir við hátíðlega athöfn við Seyðisfjrðarkirkju. Að athögn lokinni er haldin Sólvallahátíð með grillveislu og skemmtun í boði foreldrafélags leikskóladeildar.