Yngstu nemendurnir fengu Lilaï Licata í heimsókn í Skólaselið. Lilaï er frönsk og menntuð sem listrannsakandi. Hún kynnti fyrir nemendum ljósbrot og skoðaði með þeim hvernig hvítt ljós sem fer í gegnum glæran þrístrending, prisma, brotnar niður í litróf: gulan, appelsínugulan, rauðan, grænan, bláan og fjólublán. Í kjölfarið fengu nemendur að raða á ljósmynd litrófi ljóssins í glugga gamla skóla og Lilaï notaði síðan samsetningar þeirra við uppsetningu verksins.
Íslenska listakonan Korkimon, Melkorka Katrín, heimsótti nemendur í listadeild, bæði vidjó-vali á miðstigi og myndmennt með 7. bekk. Heimsókn hennar var skipulögð í samstarfi við Skaftfell þar sem Melkorka dvelur um þessar mundir í gestavinnustofu. Hún bæði sýndi nemendum verk eftir sig og vann með þeim að eigin listsköpun, yfir tvær vikur.
Í vidjó-vali á miðstigi sýndi Melkorka nemendum einfalda aðferð til að vinna myndbandsverk með myndvarpa, pappír, glærum og einföldum efnivið. Þessi aðferð býður upp á að vinna myndband á skömmum tíma og veitir nemendum auðskiljanlegan ramma til að vinna innan. Niðurstaðan úr þessu ferli verður til sýnis á jarðhæð við Austurveg 30.
Nemendur í 7. bekk rannsökuðu, með Melkorku, eiginleika ljósins og hvernig hægt væri að nota það við listsköpun. Í sameiningu ákváðu nemendur að vinna saman eitt verk og veita áhorfendum tækifæri til að taka þátt í verkinu. Útkoman er lítil ljósainnsetning í anddyri Herðubreiðs, við hliðin á afgreiðslunni, og þurfa gestir að kíkja inn fyrir svart efni til að sjá verkið.
Kv. Tinna
Suðurgata 4, 710 Seyðisfjörður
Sími á skrifstofu: 470 2320
Sími á leikskóladeild 470 2330
Netfang: seydisfjardarskoli@mulathing.is
Kt: 660220-1350
Skrifstofa skólans er opin frá kl. 8:00 - 12:00