Nýir starfsmenn í listadeild

Nú þegar skólastarfið er hafið er tímabært að kynna til leiks nýja starfsmenn í listadeild. 

Í byrjun ágúst tók Tinna Guðmundsdóttir við stjórnun í deildinni. Tinna er með BA úr fjöltæknideild Listaháskóla Íslands og MA í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Hún vann sem sjónlistakennari við skólann á síðasta skólaári og þar á undan sem forstöðukona Skaftfells til fjölda ára.

Sandra María Sigurðardóttir tók við stöðu Tinnu sem sjónlistakennari og mun einnig kenna textílmennt á þessu skólaári. Sandra er fædd og uppalin á Seyðisfirði. Hún útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands með BA gráðu 2002 með áherslu á málverk og hóf nám í kennslufræðum við sama skóla 2018. Sandra hefur komið víða við í gegnum árin: í ljóðagerð, kvikmyndagerð, tónlist, gjörningum ofl. Hún hefur haldið um 20 einkasýningar og tekið þátt í mörgum samsýningum, m.a. í Barcelona 2007 í Gallery Zero.

Í tónlistarskólanum munu Guðrún Veturliðadóttir, Celia Harrison og Jón Hilmar Kárason kenna sem stundakennarar. Guðrún, tónlistarkona, ólst upp á Snæfellsnesi og Fljótsdalshéraði. Hún hefur lært á klassískan gítar og rafmagnsgítar í Tónlistarskóla FÍH og er í BA námi í upptökustjórn og tónsmíðum í Dublin. Hún hefur unnið sem verkefnastýra samtakanna Stelpur Rokka! síðastliðin 3 ár og stofnaði svæðissamtökin Stelpur Rokka! Austurland sumarið 2018. Hún hefur starfað með ýmsum hljómsveitum, m.a. Ingibjörg Turchi Live, Vök og Tilbury.

Celia er Seyðfirðingum gókunnug enda hefur hún verið búsett á Seyðisfirði í nokkur ár og rekur þar m.a. Herðubreið og List í ljósi. Celia nam Suzuki fiðlunám í 20 ár og er einnig menntuð sem rýmishönnuður. Hún er um þessar mundir í doktornámi með áherslu á samfélagstengt menningarverkefni. Jón Hilmar hefur starfað sem tónlistarmaður og gítarkennari í yfir 20 ár. Hann hefur búið í Neskaupstað allan sinn feril og komið að gríðarlega mörgum verkefnum í gengum tíðina. Jón hefur starfað síðan 1995 og starfað við Tónskóla Neskaupstaðar ásamt því að halda námskeið og kenna í gegnum netið.

Aðrir kennarar eru Árni Geir Lárusson sem kennir á gítar, bassa, trommur og raftónlist, Kristjana Stefánsdóttir kennir söng í lotum og Rusa Petriashvili kennir á píanó og söng. Ennfremur starfar Þorkell Helgason sem smíðakennari með sinni einskæru snilld eins og síðustu ár.


Athugasemdir