Læsir - heimalestrarforrit
Seyðisfjarðarskóli hefur tekið upp nýtt og notendavænt smáforrit sem ber heitið Læsir. Verkefnið er til prufu á þessu skólaári en forritið er ennþá í þróun.
Markmiðið með upptöku þess er að einfalda skráningu heimalesturs, auka yfirsýn yfir framvindu nemenda og stuðla að bættri lestrarþjálfun. Einnig vonumst við til að nýbreytnin verði hvatning til aukins lesturs en forritið býður upp á skemmtilegar nýjungar og upplýsingar. Það safnar meðal annars þeim bókum sem nemendur lesa í rafræna bókahillu og hægt er að sjá vinsældarlista yfir lesnar bækur.
Læsir gerir nemendum og foreldrum kleift að halda betur utan um lestur heima á auðveldan hátt. Með því að skrá lestur í appinu geta notendur fylgst með framförum barnanna sinna og fengið betri yfirsýn yfir lestrarferlið. Mikilvægi þjálfunar í lestri þarf vart að útskýra og vonum við að foreldrar taki þátt í þessu með okkur.