Kennarar Múlaþings með erindi á málstofu

Í síðustu viku var málstofa í HÍ sem nefndist Að auka gæði kennslu: Reynsla kennara af því að nýta myndupptökur. Málstofan var lokahnykkurinn í rannsóknar- og þróunarverkefninu Sjálfbær starfsþróun til að auka gæði náms og kennslu (SÆG). Allir skólar í Múlaþingi áttu þátttakanda í rannsókninni og hefur vinnan staðið í um það bil eitt og hálft ár.

Á málstofunni voru kynntar helstu niðurstöður verkefnisins. Verkefnið beindist að kennsluháttum í íslensku, náttúrufræði og stærðfræði á mið- og unglingastigi grunnskóla. Sextán kennarar í Reykjavík og Múlaþingi hafa rýnt saman í eigin kennslu í eitt skólaár með það að markmiði að bæta gæði kennslunnar. Rannsóknin er styrkt af Menntarannsóknasjóði.

Kennarar frá skólum Múlaþings tóku virkan þátt í málstofunni og héldu Arna Magnúsdóttir, kennari í Seyðisfjarðarskóla og Margrét Guðgeirsdóttir úr Fellaskóla í Fellabæ erindi undir yfirskriftinni Að bæta gæði kennslu - Sjónarhorn kennara. Allir þátttakendur voru síðan hluti af dagskrá málstofanna þar sem þátttakendur deildu reynslu sinni.

Markmið rannsóknarinnar var að auka sjálfbærni starfsþróunar í námi og kennslu byggt á breiðu samstarfi við háskóla, skóla og sveitarfélagið. Með þátttöku hefur orðið til aukin þekking og skilningur rannsakenda á aðstæðum kennara í skólastofunni. Það er samróma álit þeirra sem tóku þátt í rannsókninni að upplifunin af verkefninu var jákvæð.

Þátttakendur í rannsókninni voru 28 talsins, 16 kennarar úr 13 skólum, tveimur skólaskrifstofum og af menntavísindasviði HÍ. Þátttakendum var skipt upp í þrjú teymi eftir námsgreinum og valdi hver hópur áhersluþátt úr greiningarrammanum PLATO sem unnið var með í framhaldinu undir handleiðslu mentors frá HÍ. Vinnstofur voru haldnar reglulega með öllum hópum sem og teymisfundir og heimsóknir mentoranna í skólana.

Allt snýst þetta um að bæta kennsluhætti sem leiða til betri námsárangurs nemenda.

,,Það var virkilega gaman að sjá hversu virkir þátttakendur frá Múlaþingi voru í málstofunni og það verður áhugavert að sjá þetta verkefni tekið áfram inn í skólana. Nú á hver skóli leiðtoga sem getur stutt við skólasamfélagið í sjálfbærri starfsþróun í námi og kennslu. Við erum mjög stolt af vinnu okkar fólks í verkefninu og enn og aftur sjáum við hversu mikinn mannauð við eigum í skólunum okkar.“ Sagði Stefanía Malen Stefánsdóttir að málstofunni lokinni.