Heilsueflandi samfélag

Í Heilsueflandi samfélagi er lögð áhersla á mikilvægi þess að brúa bil á milli kynslóða og hópa innan samfélagsins. Gaman er að segja frá því að í Seyðisfjarðarskóla, sem er heilsueflandi skóli, er mikið af frábærum verkefnum sem bjóða hvoru tveggja upp á samstarf og samveru kynslóðanna.

Sem dæmi má nefna að nemendur í grunnskóladeild geta sótt um að fara í starfsfræðslu á leikskóladeild. Nemendur í grunnskóladeild fara reglulega og lesa eða leika með nemendum á leikskóladeild. Nemendur í grunnskóladeild fá að taka viðtöl við þá sem eldri eru um ýmiss málefni tengd náminu þeirra. Nemendur á öllum deildum fara í heimsóknir á Hjúkrunarheimilið Fossahlíð og leika, lesa eða syngja með vistmönnum, um það bil í hverjum mánuði sem skólinn starfar.

Skólinn biðlar einnig til ákveðinna eldri borgara að kenna og hjálpa nemendum á unglingastigi að skera út laufabrauð, það er ákveðin hefð í desember. Því fólki er svo boðið í mat á litlu jólunum í skólanum. Að lokum má geta þess að skólinn er í góðu samstarfi við ýmsa aðra;. Skaftfell, Lungaskólann, Göngufélagið og Skógræktina sem býður oft upp á fjölbreytta samveru og nám þvert á kynslóðir.

Það má því sannarlega gefa Seyðisfjarðarskóla stórt klapp fyrir mörg frábær verkefni, sem þvera kynslóðir og samfélagshópa almennt. Margt og mikið fallegt og skemmtilegt er að gerast í samfélaginu á Seyðisfirði.


Athugasemdir