Tannverndarvika 3. - 7. febrúar, SÚRAR TENNUR.

 

Súrar tennur

 

Haft er eftir Jóhönnu Bryndísi Bjarnadóttur, formanni Tannlæknafélags Íslands, að tannlæknum þyki mjög alvarlegt að markaðssetningin á orku- og íþróttadrykkjum sé svo röng.

„Hvað varðar glerungseyðingu tanna þá eru sykurlausir orkudrykkir alveg jafn glerungseyðandi og sykraðir drykkir.“

Vilhelm Grétar Ólafsson, lektor við tannlæknadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur í tannfyllingum og tannsjúkdómafræði, sagði í samtali við Fréttablaðið að um hálfgerðan faraldur sé að ræða og tímabært sé að vekja athygli á málinu.

„Orkudrykkir eru gríðarlega vinsælir hjá ungu fólki og glerungseyðing er ofboðslega algeng hjá sama hópi.“

Hann sagði að á mörgum orkudrykkjum standi að þeir séu sykurlausir og því telji fólk þá hættulausa.

„En glerungseyðing er ekki eins og tannskemmdir sem er hægt að bora burt og fylla upp í, þarna erum við að tala um eyðingu á tannvef og hann vex ekkert aftur.“

Sagði Vilhelm og benti á að þessi vandi geti náð yfir allar tennurnar. Um mjög umfangsmiklar og kostnaðarsamar viðgerðir sé að ræða til að ráða bót á þessu. það sé ekki gott veganesti út í lífið að vera búinn að klára nánast allan glerung fyrir tvítugt.

Bæði Jóhanna og Vilhelm sögðu markaðssetningu orkudrykkja varhugaverða. Fólk, sem hugsi vel um heilsuna, drekki þá án þess að hugsa um áhrif þeirra á tannheilsu.

„Þetta á líka við um drykki sem fólk drekkur fyrir æfingar eins og Amino og slíka drykki. Orkudrykkir eru langflestir mjög súrir og vondir fyrir tennurnar. Svo horfa unglingarnir á auglýsingar þar sem afreksíþróttafólk neytir slíkra drykkja og þeir trúa því að sjálfsögðu að þeir séu hollir og stuðli að hreysti.“

Er haft eftir Jóhönnu.

Vilhelm sagði vatnsdrykkju vera besta kostinn og að ef fólk drekkur súra drykki sé betra að drekka þá með röri því þá fari drykkirnir framhjá tönnunum og beint niður í vélinda. Það hlífi tönnunum frekar. Hann nefndi einnig að gott sé að skola munninn með vatni eftir neyslu orkudrykkja.


Athugasemdir