Skapandi starfshættir í leikskóladeildinni.

Skapandi starfshættir í leikskóladeildinni.

Seyðisfjarðarskóli leggur áherslu á skapandi leiðir í skólastarfi og nýtum við eins og kostur er tækifæri sem skapast til að taka þátt í spennandi verkefnum  þar að lútandi. Nú eru börnin að fylgjast með árstíðaskiptunum og vinna skemmtileg og skapandi verkefni með starfsfólki skólans í tengslum við það og setja litfögur laufblöð mark sitt á þau verkefni.

Í liðinni viku fór tveir elstu árgangar í boði Skaftfells í nokkra danstíma með slóvakísk/norsk listakonunni Zdenku sem vinnur með dans og hreyfingu sem tjáningarform í listsköpun sinni en hún hefur mikla reynslu af því að vinna með börnum. Zdenka fór skemmtilegar leiðir í tímunum og fékk börnin til að taka þátt í allskonar leik og dansi þar sem auk þess að efla hreyfifærni þeirra reyndi m.a. á samvinnu, hlustun og að fara eftir fyrirmælum. Góð viðbót við það skapandi starf sem fer fram í skólanum dag hvern. Námskeiðið kallaði hún ,,tungumál líkamans“ sem minnir okkur á að börn hafa fleiri mál en bara tungumálið og það er okkar fullorðna fólksins að finna leiðir svo barnið geti tjáð sig á sem fjölbreyttastan hátt. Ítalski uppeldisfrömuðurinn Malaguzzi sem kenndur er við hugmyndafræði Reggio Emilia sagði einmitt að börn hefðu 100 tungumál en frá þeim væru tekin 99 og það væri mikilvægt að viðhalda sem fjölbreyttustu tjáningarleiðunum. Það reynum við að gera sem mest í okkar starfi og það er ekki bara verið að tala um myndlist heldur allt sem viðkemur skólastarfinu m.a. hvernig við tölum við börnin. Við tengjum sjálfbærnina sterkt við skapandi leiðir í skólastarfi og teljum afar mikilvægt að leggja áherslu á það strax við upphaf leikskólagöngu. Þar er starfsfólkið mikilvæg fyrirmynd og reynum við að temja okkur góða siði og umgengni þar að lútandi.

Það er gaman að segja frá því að hún Alona Perepelytsia kemur til okkar núna vikulega næstu 7 vikur með danstíma fyrir öll leikskólabörnin. Þau fara til hennar í litlum hópum í stuttan tíma í senn (allt eftir aldri) og gaf fyrsti tíminn með yngstu börnunum nú í vikunni sterka vísbendingu um að þau eigi eftir að blómstra í þessum tímum. Leikgleði, vinátta og kátína sveif yfir tímanum með 1 árs börnunum sem aðstoðarskólastjórinn laumaði sér inn í. Sandra María frá listadeildinni kemur einnig hingað 2x í viku með myndlistartíma með öllum börnunum og vinnur hún líka með börnin í litlum hópum.

Dans

Dans