Nýir kennarar í Listadeild

Nú þegar skólastarfið fer að hefjast er tímabært að kynna til leiks nýja kennara við tónlistarskólann/listadeild. Í byrjun ágúst tók Vigdís Klara Aradóttir við stjórnun í deildinni. Vigdís Klara er hljóðfæraleikari og tónlistarkennari að mennt og lærði m.a. í Sviss og í Bandaríkjunum. Vigdís lauk síðan meistaraprófi í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst árið 2009. Hún vann við Skólahljómsveit Víðistaðaskóla, bæði sem stjórnandi og kennari, og kenndi við Skólahljómsveit Kópavogs á síðustu árum. Vigdís Klara mun kenna á klarinett og sjá um tónmennt á yngsta stigi.

 

Guido Baeumer er nýr tréblásarakennari og mun hann kenna á saxófón og þverflautu ásamt því að sinna tónmenntakennslu og heimilisfræðikennslu á mið- og unglingastigi. Guido er fæddur í Þýskalandi og stundaði tónlistarnám í Bremen í Þýskalandi, í Basel í Sviss og í Bandaríkjunum. Hann lauk kennaraprófum í Bremen og einleikaraprófi í Sviss. Guido spilar í dúettinum Duo Ultima ásamt píanóleikaranum Aladár Rácz og hafa þeir tekið upp nokkra geisladiska og leikið á fjölmörgum tónleikum um Evrópu.

Í tónlistarskólanum munu Charles Ross og Jón Hilmar Kárason kenna áfram sem stundakennarar.

Aðrir kennarar eru  Kristjana Stefánsdóttir sem kennir söng í lotum og Rusa Petriashvili sem kennir á píanó og klassískan söng. Þá verður Guðrún Veturliðadóttir einnig með samspilssmiðjur fyrir nemendur sem stunda hljóðfæranám við deildina.

 

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í tónlistarnám fyrir veturinn 2020-2021.

Sú nýbreytni hefur verið tekin upp að í tónlistarskólanum verður notast við kerfið: School Archive. Munu tónlistarkennarar  framvegis notast við það til að skrá mætingu og hafa samskipti. 

Sótt er um námsvist inni í School Archive kerfinu, hér má nálgast umsóknareyðublaðið:

https://schoolarchive.net/school/AdmissionForm.aspx?orgId=43

 

Tónlistarkennslan hefst mánudaginn 7. september. Fullt nám er 2x 30 mínútur á viku, en einnig má sækja um hálft nám, 1x 30 mínútur á viku.

Gjaldskrá er aðgengileg hérna: https://seydisfjardarskoli.sfk.is/static/files/listadeild/listadeild_gjaldskra.pdf

Nánari upplýsingar um dagsetningar um lotur hjá Kristjönu og Guðrúnu koma á næstunni.

 

Vinsamlega athugið að ekki er víst að allir sem sækja um komist að á hljóðfæri í 1. vali, en reynt verður eftir bestu getu að verða við óskum um hljóðfæraval. Endilega hafið samband við Vigdísi Klöru ef óskað er eftir nánari upplýsingum: vigdisklara@skolar.sfk.is  eða í síma 864 5985.


Athugasemdir