Nýir starfsmenn við listadeild

Nú þegar skólastarfið er hafið er tímabært að kynna til leiks nýja kennara við listadeild.

Nýir starfsmenn í list- og verkgreinum haustið 2020 eru Tessa Rivarola,  Signý Jónsdóttir, Lilaï Licata, Guido Baeumer og Vigdís Klara Aradóttir.

Tessa Rivarola tók við listasmiðjum með áherslu á leiklist og brúðuleikhús.

Tessa fæddist í Paraguay, í miðri Suður-Ameríku. Hún er menntuð í sálarfræði og hefur nýtt þá menntun í listsköpun með börnum og ungmennum. Í vinnu sinni hefur Tessa lagt mesta áherslu á mannréttindi, samvinnu og samhygð. Hún hefur mikla reynslu af vinnu með ýmsum viðkvæmum hópum. Helsta markmið Tessu í kennslunni er að auka samkennd og samvinnu í gegnum listir.   Tessa á 19 ára gamlan son. Hún hefur skrifað og gefið út sögur fyrir börn, og  er einnig leikkona með starfsreynslu úr ýmsum löndum Suður-Ameríku. Þá hefur Tessa unnið með brúður í 11 ár, með brúðuleikhúsinu  Kunuu Titeres.  Tessa flutti til Íslands í maí í fyrra og starfaði hún við félagsmiðstöðina á  Höfn í Hornafirði og hélt námskeið fyrir framhaldsskólanema. Tessa flutti til Seyðisfjarðar núna í haust.

Signý Jónsdóttir tók við stöðu smíða- og hönnunarkennara.

Signý útskrifaðist með B.A.-gráðu í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands vorið 2019. Í verkum sínum varpar hún ljósi á uppbyggingu, nýtingu og sjálfbærni svæða með það að markmiði að virkja áhorfandann á tímum þar sem umbreytinga er þörf. Í útskriftarverki sínu tók Signý fyrir svartar sandauðnir á Íslandi, auðnir sem búa yfir sérstæðri náttúrufegurð en hafa fátt annað fram að færa. Signý hlaut styrk frá Rannís til áframhaldandi rannsókna og þróunar á verkefninu. Síðar hlaut verkefnið tilnefninu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Signý hefur tekið að sér margvísleg verkefni fyrir sveitarfélög víðs vegar á landinu við það að glæða vannýtt svæði lífi. Á meðal verkefna hafa verið viðburðir og uppbygging samkomustaða á borð við leikvöll og gufubað. Signý starfar ásamt Írisi Indriðadóttur vöruhönnuði í teymi sem fæst við það að auka verðmætasköpun auðlinda á Íslandi og efla menningu og tækifæri fólks til samveru og samtals. Á meðal verkefna þeirra eru rannsókn á íslenska æðarfuglinum, kortlagning á auðlindum íslenskra sanda og hönnun á óhefðbundnum samkomustöðum utandyra.

 

Lilaï Licata tók við stöðu sjónlistakennara.

Lilaï er frönsk-ítölsk að uppruna, lærði sögu, heimspeki og fagurfræði við Contemporary and Modern Art in Paris og einnig í Feneyjum. Árið 2015 ferðaðist hún um Norðurlöndin til að kynnast listastarfsemi Norðurlandanna. Ferðin var studd af POSCA, myndlistarvörufyrirtæki sem Lilaï hefur unnið fyrir  sem ljósmyndari og  blaðamaður. Þannig kynntist hún ýmsum  listamönnum hérlendis, m.a. Hugleiki Dagssyni og Söru Riel. Árið 2017 lauk hún meistaranámi í sjónlistum þar sem lokaverkefnið var um “Geek-Art” sem er alþjóðlegt listaverkefni. Lilaï hefur verið búsett á Seyðisfirði frá árinu 2018. Hún hefur m.a. unnið við hátíðina List í ljósi og í myndlistarmiðstöðinni Skaftfelli. Lilaï hefur haldið ýmis námskeið fyrir ungt fólk og vinnur líka í leikskóladeild Seyðisfjarðarskóla. Hún hlakkar mikið til að hefja störf sem myndmenntakennari við listadeildina, enda með reynslu af starfi með börnum og listnám að baki.

Guido Baeumer tók við tónmennta- og heimilisfræðikennslu á mið- og unglingastigi.

Guido er einnig nýr tréblásarakennari við tónlistarskólann og mun hann kenna á saxófón og þverflautu. Guido er fæddur í Þýskalandi og stundaði tónlistarnám í Bremen í Þýskalandi, í Basel í Sviss og í Bandaríkjunum. Hann lauk kennaraprófum í Bremen og einleikaraprófi í Sviss. Guido spilar í dúettinum Duo Ultima ásamt píanóleikaranum Aladár Rácz og hafa þeir tekið upp nokkra geisladiska og leikið á fjölmörgum tónleikum um Evrópu. Einnig hefur Duo Ultima fengið listamannalaun og ýmsa styrki til tónleikahalds. Guido hefur verið félagi í hinum ýmsu matarklúbbum um ævina og er sérstaklega áhugasamur um matargerð frá Mið-Evrópu.

 

Vigdís Klara Aradóttir tók við tónmenntakennslu á yngsta stigi og stjórnun í deildinni.

Vigdís Klara er hljóðfæraleikari og tónlistarkennari að mennt og lærði m.a. í Sviss og í Bandaríkjunum. Hún lærði á saxófón og klarinett og lauk fyrst prófum hér á Íslandi, frá Tónskóla Sigursveins og Tónlistarskólanum í Reykjavík. Vigdís lauk síðan meistaraprófi í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst árið 2009. Hún vann við Skólahljómsveit Víðistaðaskóla, bæði sem stjórnandi og kennari, og kenndi við Skólahljómsveit Kópavogs á síðustu árum. Vigdís Klara mun einnig kenna á klarinett við tónlistarskólann.


Athugasemdir