Nótan verður haldin á Eskifirði laugardaginn 19. mars. Eirikka Sól Stefánsdóttir og Emelía Björt Hörpudóttir taka þátt fyrir Seyðisfjarðarskóla. Þær leika á gítar, kennari er Jón Hilmar Kárason.
Uppskeruhátíð tónlistarskóla um land allt næstu helgi
NÓTAN - uppskeruhátíð tónlistarskóla fer fram næstu helgi á fimm svæðistónleikum um landið. Tónlistarskólar landsins eru um 80 talsins og um 14.000 nemendur stunda nám innan tónlistarskólakerfisins. Tilgangur uppskeruhátíðarinnar er að beina kastljósinu að samfélagi tónlistarskóla og tónlistarnemenda.
NÓTAN – uppskeruhátíð tónlistarskóla var fyrst haldin skólaárið 2009-2010 og er árlegur viðburður í kerfi tónlistarskóla á Íslandi. Að Nótunni standa Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Samtök tónlistarskólastjóra. Hátíðin er í senn faglega hvetjandi og skemmtilegt innlegg í skólastarfið fyrir alla aðstandendur skólanna jafnt innan veggja þeirra sem utan. Síðustu tvö ár hefur ekki verið unnt að halda þessar uppskeruhátíðir með hefðbundnu sniði og er afar ánægjulegt að geta komið saman á ný og notið afraksturs skólastarfsins, á sama tíma og við vonandi kveðjum Covid-19 fyrir fullt og allt. Árið 2020 þurfti að fresta 10 ára afmælishátíð Nótunnar vegna Covid-19 og í fyrra fór fram Net-Nótan þar sem tónlistarskólar sendu inn myndbönd sem saman mynduðu sjónvarpsþætti á N4.
Fjölmiðlar eru hvattir til að gera Nótunni skil í ár enda snerta þessar uppskeruhátíðir margar fjölskyldur í landinu. Grunnhugsun uppskeruhátíðar tónlistarskóla byggir á því að þátttakendur séu frá öllu landinu, á ólíkum aldri og öllum stigum tónlistarnámsins. Fyrirkomulagi hátíðarinnar er ætlað að endurspegla ólík viðfangsefni tónlistarnemenda og það fjölbreytta starf sem fram fer innan tónlistarskóla.
Suðurgata 4, 710 Seyðisfjörður
Sími á skrifstofu: 470 2320
Sími á leikskóladeild 470 2330
Netfang: seydisfjardarskoli@mulathing.is
Kt: 660220-1350
Skrifstofa skólans er opin frá kl. 8:00 - 12:00