Í tilefni af baráttudegi gegn einelti

Föstudaginn 7. Nóvember unnum við með áhugavert verkefni á miðstigi tengt laginu „Eitt af blómunum" eftir Benna Hemm Hemm og Pál Óskar.

Við hlustuðum fyrst á lagið og nemendur lýstu tilfinningum sínum gagnvart því. Margir nefndu að lagið væri glaðlegt og skemmtilegt, sumir heyrðu jafnvel jólahljóm í því. Þegar við lásum textann saman kom hins vegar í ljós að lagið fjallar um mun dýpra og erfiðara efni - einelti og mikilvægi þess að standa ekki hjá þegar við verðum vitni að slíku.

Þetta kveikti afar áhugaverðar umræður í bekknum um fjölbreytileika, virðingu og mikilvægi þess að koma fram við aðra af tillitssemi. Út frá þessum umræðum fórum við í skapandi verkefni þar sem nemendur bjuggu til sameiginlegan garð með fjölbreyttum blómum - táknrænt fyrir það hvernig við öll erum ólík en eigum samt öll rétt á að njóta virðingar og finna okkar stað í heiminum. Eins og segir í textanum: Það er alveg nóg pláss í garðinum!