Í gær fengum við svo skemmtilega heimsókn í skólann.

Í gær fengum við svo skemmtilega heimsókn í skólann.

Þá kom Gunnar Helgason rithöfundur og spjallaði við nemendur í 3. – 8. bekk um af hverju það er svo mikilvægt að lesa.

Hann sagði krökkunum líka frá því af hverju hann fór að skrifa barnabækur. Þar kom m.a. fram að það mætti halda að bækurnar um Jón Odd og Jón Bjarna hefðu verið skrifaðar um hann og tvíburabróður hans, ja barasta fjölskylduna í heild. Önnur ástæða var að hann vildi skrifa bók sem höfðaði til stráka eins og sona hans, sem t.d. höfðu gaman af fótbolta. Síðar kom í ljós að bækurnar höfða líka til stelpna. Margar stelpur elska auðvitað fótbolta.

Gunni las með miklum leikrænum tilþrifum úr nokkrum bóka sinna svo bæði kennarar og nemendur veinuðu úr hlátri. Einnig sýndi hann okkur trailer úr bíómynd sem gerð er eftir bókinni Víti í Vestmannaeyjum og verður bráðum frumsýnd.

En við höfðum líka glaðning fyrir Gunna því það var spilað lag fyrir hann sem einn nemandi okkar, hann Aron Elvarsson í 2. bekk hafði samið um Gunna s.l. haust. Hann var svo ánægður með þetta að hann fékk lagið með sér og ætlar að setja það á Facebook.

Í lokin stóðu nemendur í langri röð til að fá bækurnar sínar áritaðar af Gunna. Krakkarnir sem langflest þekkja verk hans vel, höfðu hlaupið heim að sækja bækurnar sínar til að fá þær áritaðar.

 Við þökkum Gunna fyrir komuna og ógleymanlega stund.


Athugasemdir