Haustþing leikskóla á Austurlandi á Seyðisfirði

Leikskóladeild Seyðisfjarðarskóla tók á móti 200 gestum á Haustþing leikskóla á Austurlandi sem haldið var á Seyðisfirði, föstud. 14. sept. síðast liðinn. Gestir komu allt frá leikskólanum á Hornafirði allt til leikskólans á Vopnafirði og alls voru 10 leikskólarþátttakendur í þinginu.

Þingið hófst með fyrirlestri Vilborgar G. Guðnadóttur, geðhjúkrunarfræðings hjá BUGL. Hún fjallaði um geðtengslamyndun barna og fullorðinna. Hún fjallaði um mikilvægi góðra geðtengsla fyrir þroska og vellíðan barna bæði í æsku og í framtíðinni. Að fyrirlestrinum loknum var haldið í Lunch beat með Alonu Perepelytsia í Íþróttahúsinu þar sem gestir fengu útrás í dansi. Hótel Aldan tók á móti gestum í hádegisverð í Herðubreið þar sem boðið var upp á girnilegt grænemtislasagne og meðlæti. Að hádegisverð loknum gátu gestir valið um fjórar mismunandi málstofur, allt eftir áhuga og starfsviði. Málstofunar voru þær eftirfarandi:

1. Geðtengsl barna, framhaldsnámskeið þar sem Vilborg fjallaði áfram um þetta mikilvæga málefni og svaraði fyrirspurnum.

2. Snemmtæk íhlutun í málþroska leikskólabarna. Þar fjölluðu Hulda P. Haraldsdóttir, deildarstjóri og Júlíana Vilhjálmsdóttir, sérkennslustjóri í Hafnarfirði segja frá hvernig unnið er eftir hugmyndafræðinni um Snemmtæka íhlutun í málörvun leikskólabarna í leikskólanum Norðurbergi.

3. Dans og leikjanámskeið með Alona Perepelytsia, dansari og danskennari kenndi dans- og hreyfileiki fyrir börn sem nýtast í daglegu starfi jafnt úti sem inni og fór yfir æfingar og teygjur fyrir fullorðna og börn

4. Kynning á nýrri handbók fyrir leikskólaeldhús. Elva Gísladóttir, næringafræðingur hjá landlæknisembættinu kom og kynnti efni bókarinnar og svaraði fyrirspurnum. Þá höfðu matráðar tækifæri til að hittast og ræða saman um verkefni vinnudagsins og áskoranir dags daglega.

Allar deildir Seyðisfjarðarskóla voru opnar að þingi loknu þar sem gestum var boðið að skoða sig um.

Við skipulagningu þingsins var lögð áhersla á  fjölbreytt viðfangsefni þar sem flestir gátu fundið eitthvað við sitt hæfi en þar sem Seyðisfjarðarskóli er þátttakandi í verkefni landlæknis; Heilsueflandi skóli var lagt upp með að ná til sem flestra þátta þess verkefnis. Líkamlega og andleg heilsa starfsmanna og nemenda var í hávegum höfð þennan dag sem og aðra, hvort sem litið er til viðfangsefna dagsins, hreyfingu eða næringu.

 Starfsfólk leikskóladeildar er virkilega ánægt með vel heppnaðan dag og vill þakka öllum þeim sem komu að skipulagningu eða framkvæmd dagsins fyrir hjálpina. Einnig er gestum þakkað kærlega fyrir komuna.

Myndir. Haustþing leikskóla á Austurlandi á Seyðisfirði

 

 

 

 

 

 


Athugasemdir