Opnun á sameiginlegu bókasafni skólans og bæjarins

Bókasafnið er bjart og notalegt.
Bókasafnið er bjart og notalegt.
Um helgina opnaði sameiginlegt skóla- og bæjarbókasafn í húsnæði rauða skóla að Skólavegi og húsnæði Seyðisfjarðarskóla alls var til sýnis eftir nokkuð umfangsmiklar breytingar og tiltekt s.l. hálft ár. Við þessar breytingar hefur aðgengi nemenda og bæjarbúa að sameiginlegum rýmum gjörbreyst frá því sem áður var,  því fyrir utan að bókasafnið er nú á jarðhæð með góðu aðgengi fyrir hreyfihamlaða og bókakosturinn sameinaður,  þá höfum við tekið í notkun tónlistarstofu í rauða skóla sem og nýja vel búna heimilisfræðistofu. Vísar að námskeiðahaldi og tónlistarstarfi fyrir almenning eru þegar farnir að eflast. 
 
Bæjarsjóður hefur staðið straum af kostnaði vegna þessara breytinga,  en einnig hefur skólinn og bókasafnið fengið ýmsa styrki. Til að mynda styrkti Brimberg ehf. bókasafnið fyrir sófakaupum, Smyrilline styrkti verkefnið um það sem nam flutningi á sófunum, og Sprotasjóður styrkir skólastarfið í ár vegna sameiningar skólanna og stofnun sameiginlegs bókasafns, sem ætlað er að þróast í upplýsinga- og þjónustumiðstöð.  Þjónustumiðstöð bókasafna var okkur innan handar með ráðleggingu og hönnun safnsins og fjórtán sjálfboðaliðar frá sjálfboðliðasamtökunum Seeds réttu okkur hjálparhönd ásamt bæjarbúum þegar kom að flutningi húsgagna og bóka. Þess má einnig geta hér að Ingvi Örn Þorsteinsson grafiskur hönnuður styrkti skólastarfið um þá upphæð sem nam vinnu hans við úrvinnslu á merki skólans, en haldin var samkeppni um merki skólans s.l. vor.  
 
Að þessu tilefni færði Arnbjörg Sveinsdóttir forseti bæjarstjórnar, fyrir hönd bæjarins,  hinu sameinaða bókasafni hljómflutningstæki og heyrnatól að gjöf og tryggði með því að nemendur og gestir geta nú  hlustað á hljóðbækur í notalegu umhverfi safnsins. Seyðisfjarðarskóli færði safninu einnig prjóna og garn og hóf þannig ákveðinn gjörning -  en til boða stendur að gestir prjóni samfélagsteppi úr marglitum bútum sem verða saumaðir saman í stórt marglitt og teppi þegar þeir eru orðnir nægilega margir. 
 
Við í Seyðisfjarðarskóla erum alsæl með opnunina um helgina og þökkum öllum þeim gestum sem komu í heimsókn og öllum þeim sem hafa lagt lið við breytingarnar undanfarna mánuði kærlega fyrir vinnuframlag, gjafir og hlýju.  

Athugasemdir