Ærslabelgurinn er tilbúinn!

Ærslabelgurinn er tilbúinn! Það verður loksins hægt að hoppa á belgnum frá því klukkan 16 í dag (eða kannski fyrr) og alla helgina. Loftið verður ekki tekið úr belgnum næstu daga, en um miðja næstu viku verður allur frágangur kláraður; þökur verða settar meðfram belgnum, skilti með reglum verður sett upp og tímastillir á notkun sett í gang. Athugið; kallað verður eftir foreldrum í þá vinnu.

Þess ber geta að ekkert af þessu hefði verið hægt ef ekki hefði verið fyrir algjörlega frábæra aðstoð, hvoru tveggja vinnu og fjárhagslega aðstoð, frá Lionsklúbbi Seyðisfjarðar, Seyðisfjarðarkaupstað, starfsmönnum áhaldahúss, Bóasi Eðvaldssyni, Ólafi Birgissyni, Guðmundi Sigurbjörnssyni og fleirum.

Öllu þessu fólki og þeim foreldrum sem lagt hafa hönd á plóginn er hér með þakkað kærlega fyrir og Seyðisfjarðarkaupstað er óskað til hamingju með fína ærslabelginn sinn.

Að öllu jöfnu verður blásið lofti í belginn klukkan 8 á morgnana og tekið úr klukkan 22 á kvöldin. Yfir háveturinn mun belgurinn liggja loftlaus á grasinu og þá má helst ekki vera á honum. Annars eru börn, unglingar og aðrir notendur beðnir að taka vinsamlegast tillit til þeirra sem eru að hoppa, fara úr skónum áður en farið er að hoppa, fara varlega og ganga vel um belginn.

 

Góða skemmtun,

Stjórnir foreldrafélags grunn- og leikskóladeildar Seyðisfjarðarskóla.


Athugasemdir