Val

Val * Unglingastig

Val á unglingastigi er opið og frjálst (nemendastýrt) á seinni tveimur önnum skólársins en á fyrstu önn fá nemendur að velja milli þriggja greina. Í báðum tilfellum gildir það að nemendur velja sjálfir sín viðfangsefni, vinna hugmyndavinnu, setja sér markmið, skipuleggja vinnuna og bera sjálfir ábyrgð á því að ná markmiðum sínum.

Markmið vals á unglingastigi er að nemendur þekki helstu hugmyndir um sköpunarferlið og tileinki sér hæfni í því að vinna með það. Nemendur kynnast öllum hliðum sköpunarferlisins af eigin raun - ætlast er til að nemendur taki virkan þátt í öllum stigum sköpunarferlisins og séu óhræddir við að framkvæma eigin hugmyndir og sýni öðrum tillitssemi.

Val * Miðstig

Á fyrstu önn er nemendum boðið upp á þrjú viðfangsefni: Myndbandagerð, tímaritsútgáfa og kofasmíði. Nemendur velja tvennt af þessu og tilgreina hvort þeir vilja helst gera. Nemendum er skipt eftir vali og jafnað er í hópa með því að veita sumum sitt annað val – en þeir fá þá sitt fyrsta val á næstu önn. Þá eru önnur þrjú viðfangsefni í boði og nemendur geta valið aftur.

Þessi þrjú viðfangsefni eru hugsuð eins og rammar utan um frjálst val. Þegar nemandi hefur til dæmis valið sér að fást við myndbandsgerð hefur hann frjálsar hendur með hvernig myndband hann gerir, með hverjum það er gert osfv. Rammar utanum valið hjálpa nemendum að ná tökum á annars frjálsum vinnubrögðum og er miðstigsvalið hugsað sem inngangur að unglingavali, þar sem nemendur hafa algjörlega frjálsar hendur með sín verkefni.

Markmið vals á miðstigi er að nemendur þekki helstu hugmyndir um sköpunarferlið og tileinki sér hæfni í því að vinna með það. Nemendur kynnast öllum hliðum sköpunarferlisins af eigin raun - ætlast er til að nemendur taki virkan þátt í öllum stigum sköpunarferlisins og séu óhræddir við að framkvæma eigin hugmyndir og sýni öðrum tillitssemi.

Texti um framkvæmd

Nemendur fá það verkefni að gera það sem þeir vilja. Það hljómar eins og auðvelt verkefni eða jafnvel eins og undarleg ósk um stefnulausa óreiðu. En þegar kemur að því að leysa þetta verkefni kemur í ljós að til þess að leysa það þurfa nemendur að hafa einbeitingu og tileinka sér vinnusemi og áræðni. Það reynir á fjöldamarga þætti í valinu og ýmsa hæfni sem mikilvægt er að tileinka sér á öllum mögulegum vígstöðvum í lífinu.

Áskoranir nemenda í valinu eru mjög ólíkar milli einstaklinga. Í raun felst aðal lærdómur fyrir hvern og einn í valinu í því að mæta þessum áskorunum. Til dæmis reynist sumum mjög auðvelt að vinna hugmyndavinnu en eiga svo erfitt með að koma sér af stað að vinna. Aðrir eiga auðvelt með hugmyndavinnu og að framkvæma hugmyndirnar en eiga svakalega erfitt með að klára. Aðrir frjósa á hugmyndavinnustiginu og þurfa mikla hjálp við að vinna sig í gegnum það.

Áskorun kennarans er að svipta nemendur ekki ábyrgð sinni á náminu. Fyrir nemanda sem veit ekki hvað hann á að gera í upphafi sköpunarferlisins er mjög mikilvægt að leiðbeina honum í gegnum ýmsar leiðir til að finna hugmyndir, til að tengjast sínum áhuga og drifkrafti, en ekki að létta af honum ábyrgðinni og gefa hugmyndir og stýra framhjá þeirri áskorun að svara spurningunni: Hvað vil ég gera? Þetta er grundvallaspurning sem nemendur spyrja sig sjálfa og leita síðan svara innra með sér.