Skólareglur

Börn sem alast upp við jákvætt viðhorf heimilis til skóla standa sig að öllu jöfnu betur í námi og fara út í lífið með jákvæðara viðhorf til Skólareglurtilverunnar en þau sem búa við neikvætt viðhorf til skólans á heimilum sínum. Skólinn hefur axlað æ meiri ábyrgð á uppeldi barnanna þrátt fyrir að samkvæmt rannsóknum sé heimilið helsti mótunaraðilinn í hegðun og viðhorfum. Foreldrar þurfa af og til að ræða við börn sín um að þau komi fram af prúðmennsku og háttvísi innan skólans sem utan og sýni fyllstu kurteisi í samskiptum við skólasystkini og starfsfólk skólans.

Æskilegt er að foreldrar gæti þess að spilla ekki námsáhuga, virðingu fyrir kennurum eða skóla með ógætilegu tali um starfsmenn skólans í áheyrn barnanna. Eðlilegra er að ræða beint við þá sem gagnrýnin beinist að. Kennaranum er ómögulegt að taka tillit til athugasemda sem hann fær ekkert að vita um.

Höfum hugfast að það er sameiginlegt markmið foreldra og kennara að gera skólagöngu barnanna sem ánægjulegasta.

Skólinn fylgir Olweusaráætluninni gegn einelti og andfélagslegu atferli og tekur fyrsta skólareglan mið af því. 

 1. Samskipti

Við leggjum ekki aðra í eineltiVið reynum að aðstoða þá nemendur sem verða fyrir einelti. Við eigum líka að vera með nemendum sem eru oft einir.

Ef við vitum að einhver nemandi er lagður í einelti eigum við að segja umsjónarkennaranum (eða öðrum starfsmanni) frá því og líka fólkinu heima.

Skilgreining á einelti:

Einstaklingur er lagður í einelti ef hún eða hann verður fyrir endurteknum neikvæðum verknaði eins eða fleiri einstaklinga yfir ákveðið tímabil (Olweus 1986, 1992).

 2. Námið

Nám er vinna og til þess að sú vinna skili árangri skal hver nemandi taka tillit til annarra og virða vinnufrið í kennslustundum. Nemendur skulu standa við þær námsáætlanir sem þeim hafa verið settar og mæta með öll gögn og áhöld sem til er ætlast í kennslustundir.

Það er í höndum umsjónarkennara að fylgjast með námsárangri nemenda sinna og gera viðeigandi ráðstafanir ef út af ber.

 3. Stundvísi

Nemendur skulu mæta stundvíslega í allar kennslustundir. Fjarvistir skulu tilkynntar af forráðamönnum eins fljótt og auðið er til skólans. Óskir um leyfi frá skóla þurfa alltaf að koma frá forráðamönnum nemenda. Forráðamenn bera ábyrgð á að nemendur vinni upp það nám sem þeir missa úr vegna leyfa og annarra fjarvista. Beiðni um leyfi sem stendur lengur en þrjá daga skal senda með tölvupósti til skólastjórnenda. Umsjónarkennarar geta gefið leyfi þegar um ræðir einn til þrjá daga.

Forráðamenn fá reglulega sent yfirlit yfir mætingar barna sinna og ættu þeir að ræða mikilvægi þess að temja sér stundvísi.

 4. Kurteisi

Nemendum ber að sýna hver öðrum, kennurum og öðru starfsfólki skólans kurteisi og vanda orðbragð. Nemendur skulu fylgja fyrirmælum skólastjórnenda, kennara og annarra starfsmanna skólans.

 5. Umgengni

Nemendur skulu temja sér góða umgengni, jafnt innan skólans sem utan, og forðast að valda skemmdum á eigum skólans, nemenda og annarra sem þar starfa.

Sé nemandi staðinn að því að eyðileggja vísvitandi eða vegna alvarlegs gáleysis eigur skólans eða annarra í skólanum er honum eða foreldrum hans skylt að bæta tjónið. Týni nemandi námsgögnum í eigu skólans eða valdi á þeim skemmdum er honum eða foreldrum hans skylt að bæta þau.

 6. Nesti að heiman. Sætindi, kolsýrðir drykkir, tóbak, áfengi og önnur vímuefni.

Nemendur mega ekki neyta sælgætis né kolsýrðra drykkja í skólanum nema við sérstök tækifæri, með leyfi kennara.

Þar sem við erum heilsueflandi skóli mælumst við til að nemendur sem koma með árbít að heiman fylgi eftirfarandi lista yfir hollt nesti sem byggir á tilmælum frá manneldisráði og tannverndarráði og vonumst við til að hann  komi að gagni:

 Ávextir: Hverskonar ferskir ávextir, svo sem epli, appelsínur, perur, bananar, mandarínur, jarðarber, ferskjur, kíví, melónur. Þurrkaðir ávextir svo sem döðlur, epli, gráfíkjur og rúsínur.

Grænmeti: Gulrófur, agúrkur, tómatar, gulrætur og alls konar kál.

Brauðmeti: Rúgbrauð, heilhveitibrauð, ýmiss konar fjölkornabrauð,  hrökkbrauð og hafrakex sem hægt er að smyrja. Veljum hollt álegg.

Drykkir: Mjólk og vatn.

Aðrar mjólkurvörur: Allar mjólkurvörur sem eru án viðbætts sykurs, s.s. jógúrt, skyr og mjólkurdrykkir án viðbætts sykurs.

 Verum minnug þess að börn læra það sem fyrir þeim er haft og fullorðna fólkið er fyrirmynd þeirra í mataræði sem öðru.

 

 Neysla tóbaks, áfengis og annarra vímuefna er bönnuð í og við skólann og í ferðum á vegum skólans.

Verði nemandi vís að notkun ofangreindra efna í eða við skólann eða í ferðum á vegum hans er unnið samkvæmt viðbragðsáætlun Seyðisfjarðarskóla vegna vímuefnaneyslu en áætlunin er aðgengileg á heimasíðu skólans.

 7. Skólalóð 

Nemendum ber að sýna hver öðrum góða framkomu á leiksvæði skólans, trufla ekki leiki hvers annars og varast að meiða aðra, hvort sem er í orði eða verki.

Ef nemandi er staðinn að því að meiða aðra nemendur, eyðileggja leiki eða leggja aðra nemendur í einelti á skólalóð er leitast við að leysa málið með það í huga að bæta hegðun nemandans. Viðurlög eru miðuð við aðstæður hvers nemanda og eðli máls hverju sinni. Ávallt er leitað eftir samstarfi við foreldra í slíkum aðstæðum samanber eineltisáætlun Seyðisfjarðarskóla. 

 8. Skór og yfirhafnir

Nemendur skulu fara úr skóm, yfirhöfnum og húfum áður en farið er inn í kennslustofur og ganga snyrtilega frá þeim við fatahengi. Nauðsynlegt er að foreldrar merki yfirhafnir og skófatnað. Skólinn tekur ekki ábyrgð á því ef fatnaður nemenda eða skór hverfa úr skólanum. Sama á við ef peningar hverfa úr yfirhöfnum. Nemendur bera ábyrgð á eigin eigum í skólanum.

 9. Notkun farsíma, tölvuleikja og annarra slíkra tækja

Ekki er heimilt að nota farsíma, tölvuleiki, ipoda, mp3 spilara eða önnur slík tæki í skólanum, nema annað sé tekið fram.

Sé nemandi staðinn að notkun farsíma, tölvuleikja eða spilara í skólanum án leyfis kennara fær viðkomandi aðvörun. Við endurtekið brot mun tækið gert upptækt og geta foreldrar/forráðamenn nálgast það. Einnig áskilur starfsfólk sér rétt til að taka í sína vörslu hættuleg og óleyfileg leikföng eða leiktæki sem nemandi er með í skólanum eða á lóð hans á skólatíma. Tekið skal fram að nemendur bera sjálfir alfarið ábyrgð á tækjum sem þeir hafa með sér í skólann.

 10. Bekkjarreglur

Innan hvers bekkjar gilda ákveðnar reglur. Þær eru mismunandi eftir árgöngum og skráðar sérstaklega ár hvert af umsjónarkennurum og nemendum.

Nemendur skulu fara eftir bekkjarreglum jafnt sem skólareglum og eru viðurlög við brotum á þeim þau sömu og við brotum á skólareglum.

 11. Reiðhjól, hlaupahjól og önnur slík farartæki

Við hvetjum nemendur og starfsfólk til að ganga eða hjóla í skólann sér til heilsubótar og til að minnka umferð við skólann á morgnana.

Það eru eindregin tilmæli frá skólanum að nemendur í 1. og 2. bekk komi ekki á hjóli í skólann nema í fylgd fullorðinna.

Þeir nemendur sem hjóla í skólann eiga samkvæmt umferðarlögum að vera með hjálm.  Æskilegt er að geyma hjólin í hjólagrindum. Athygli er vakin á því að skólinn ber ekki ábyrgð á hjólum sem standa við skólann.