Þarfir nemenda

Í skólanum er leitast við að haga störfum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins, eins og fram kemur í 2. grein grunnskólalaga. 

Námsaðlögun felur í sér að kennarar leggi sig fram um að koma til móts við einstaklingsbundnar þarfir nemenda og tekur mið af forsendum til náms, áhuga og námssniði nemenda. Þannig getur námefni hvers og eins verið ólíkt hverju sinni.

Námsaðlögun getur falið í sér:

  • gerð einstaklingsnámskrár þar sem alfarið er unnið með aðlöguð námsmarkmið. Slík námskrá er unnin af kennurum í samráði við nemendur og foreldra.
  • að námið sé aðlagað að getu nemenda. Þar sem námsaðlögun á sér stað notar kennarinn fjölbreyttar leiðir til að koma til móts við námslegar þarfir nemenda.
  • fjölbreytt námsmat. Kennarar meta stöðu nemenda með fjölbreyttum hætti.
  • mismunandi nálgun kennara að innihaldi, ferli og afurð. Kennslan er miðuð að því hvað nemendur læra, hvernig þeir læra og hvernig þeir sýna þekkingu sína.
  • sveigjanlegt skipulag, það er bekkjarkennslu, hópa- og einstaklingskennslu.

Sérkennsla felur í sér breytingar á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og kennsluaðferðum. Unnið er samkvæmt einstaklingsnámskrá sem sérkennari og umsjónarkennari útbúa í hverju tilviki fyrir sig í samráði við foreldra/forsjáraðila og annað starfsfólk.

Stuðningskennsla er vinna með nemendum sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda í námi. Kennslan fer ýmist fram sem stuðningur í kennslustund, í litlum nemendahópum eða sem einstaklingskennsla. Aðstæður eru metnar í hverju tilfelli fyrir sig.

Stuðningur er þar sem stuðningsfulltrúar aðstoða kennara við að sinna einum eða fleiri nemendum sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda. Hlutverk þeirra er fyrst og fremst að auka færni og sjálfstæði nemenda, hvort heldur sem er námslega eða félagslega.