UMHVERFISVERND Í LEIKSKÓLADEILD SEYÐISFJARÐARSKÓLA
Nemendur leikskóladeildar hafa hlotið viðurkenningu fyrir þátttöku í verkefnasamkeppni um umhverfismál.
Eftirfarandi vinna fer fram hjá nemendum leikskóladeildar:
Allir nemendur nota taupoka undir óhrein og blaut föt til að fara með heim.
Nemendur eru hvattir til að koma með allskonar verðlaust að efni að heiman til að nýta í sköpun og leik. Nemendur flokka efniviðinn sjálfir þegar þeir koma með hann og klippa sjálfir niður pappaumbúðir undan morgunkorni t.d. Pappinn er mikið notaður til að teikna og mála á og annar efniviður er notaður í að skapa það sem hverjum og einum dettur í hug.
Nemendur nota tauþurrkur til að þurrka sér um hendur á wc og skiptast á dagalega að fara með þær í þvott og sækja hrein stykki. Þau sjá svo um það sjálf hvert og eitt að hengja upp þvottastykki á merkta klemmu sem þau eiga.
Við notum litlar tuskur (gömul handklæði sem við rífum niður) til að nota sem gólftuskur þegar eitthvað skvettist á gólfið í stað þess að nota pappír.
Lögð er áhersla á að minnka matarsóun og nemendur bera sjálfir ábyrgð á að skammta sér passlega á diskinn.
Börnin fylgjast með hvenær dagsbirtan dugar til að veita nægilega birtu og slökkva þá ljósin á viðkomandi svæðum.
Einnig eru þeim bent á mikilvægi þess að láta ekki vatnið renna endalaust úr krönum.
Lögð er áhersla á að nemendur læri að bera virðingu fyrir umhverfi sínu og ganga vel um hluti, bæði leikefni og innanstokksmuni. Einnig sinna þau sjálf jurtum í umhverfi sínu með því að vökva þær og sífellt er unnið með samskipti manna í millum með virðingu að leiðarljósi.
Gönguferðir og náttúruskoðun eru ætíð á dagskrá þegar færð og veður leyfa og útistofan hefur verið nokkuð vel nýtt. Mikil áhersla er þá lögð á virðingu og góða umgengni um náttúruna og ruslatýnsla er partur af gönguferðum.
Haustverkefni um tré:
Verkefnið fólst í því að rannsaka tré í umhverfinu og fræðast sem mest um það. Við rannsökuðum tré og umhverfi þess á margvíslegan hátt út í náttúrunni, söfnuðum afurðum trjánna og leituðum upplýsinga í bókum og á netinu um hringrás trésins, mismundandi trjátegundir og fleira. Við lékum tré og lásum um tré og að lokum skapaði hópurinn sameiginlegt tré úr verðlausu efni. Hópurinn fór í listasmiðju með kennara og fann út í sameiningu hvernig verkið ætti að vera. Fyrst var valinn stór pappahólkur fyrir trjábolinn og spottar voru síðan settir inn í hólkinn fyrir æðar trésins. Hópurinn fann síðan trjágreinar sem voru til í listasmiðjunni og kom þeim fyrir á trjábolnum. Þurrkuð laufblöð voru límd á greinarnar og trjábörkur límdur á bolinn. Þau notuðu síðan grannar greinar fyrir rætur og festu neðst á bolinn. Að endingu ákváðu þau að setja rigningu á myndina og rifu niður efni í ræmur sem lá niður myndina og bundu neðst í ræturnar. Æðarnar voru síðan líka tengdar við ræturnar svo nú var búið að bjarga lífi trésins. Verkið var í vinnslu í nokkrar vikur og þróaðist stig af stigi í gegnum umræður og vangaveltur um útfærslu verksins. Eingöngu verðlaust efni og efni sem þau týndu út í náttúrunni voru notuð í verkið.
Suðurgata 4, 710 Seyðisfjörður
Sími á skrifstofu: 470 2320
Sími á leikskóladeild 470 2330
Netfang: seydisfjardarskoli@mulathing.is
Kt: 660220-1350
Skrifstofa skólans er opin frá kl. 8:00 - 12:00