Á nýliðnum starfsdögum, eða þegar nemendur voru í haustfríi, fór stærstur hluti starfsfólks Seyðisfjarðarskóla í námsferð norður í land. Námið fólst í því að heimsækja tvo skóla norðanlands sem hafa sama eða svipað rekstrarform og við, þ.e. samrekinn leik- grunn- og tónlistarskóla (nema hvað tónlistarskólinn okkar hefur verið útvíkkaður í listadeild). Við höfðum fyrirfram beðið skólastjórana að segja okkur hverjir væru kostirnir við slíkan samrekstur að þeirra mati og hvað bæri að varast.
Í Ljósavatnsskarði heimsóttum við Stórutjarnaskóla, sem tók upp slíkt samrekstrarform þegar árið 2001, fyrstur skóla á landinu. Ólafur Arngrímsson skólastjóri sagði okkur frá því hvernig rekstrinum og skólastarfinu er háttað og Torfhildur Sigurðardóttir (frá Seyðisfirði) deildarstjóri leikskóladeildar, sagði frá starfinu af sjónarhóli leikskólans. Því næst vorum við leidd um húsið sem er bæði rúmgott og snyrtilegt, með t.d. bókasafni, sundlaug og litlum íþróttasal. Íþróttasalurinn er einnig nýttur í samkomur bæði fyrir skólann og samfélagið, en mikil áhersla er á samstarf og snertingu við samfélagið í skólastarfinu, s.s. með tónleikum og upplestri fyrir eldri borgara o.m.fl. Veitingar og elskulegheit voru þarna í ómældu magni í boði skólans og skólastjórahjónanna og þökkum við gestrisni þeirra af alhug.
Vel var einnig tekið á móti okkur í Valsárskóla á Svalbarðseyri sem næst var heimsóttur. Þar var sömuleiðs mjög rúmt um skólastarfið og afar vel mannað, t.d. eru í grunnskóladeildinni jafn margir starfsmenn og grunnskóladeild Seyðisfjarðarskóla þó nemendur séu þar tæplega 20 færri. Þar er líka lögð áhersla á mikið samband við nærsamfélagið og þennan dag var t.d. ömmu- og afakaffi í skólanum þar sem nemendur komu fram með tónlist upplestri o.fl. Skólinn starfar eftir Uppeldi til ábyrgðar, og fengum við greinargóðan og upplýsandi fyrirlestur frá Ingu Sigrúnu Atladóttur skólastjóra um stefnuna og það hvernig hún er útfærð í Valsárskóla. Við skoðuðum húsnæði allra þriggja deilda undir leiðsögn skólastjóra og þökkum kærlega fyrir tímann sem fólk gaf okkur að fá að koma og sjá og fræðast um skólastarfið.
Þó að skólarnir væru ólíkir um margt, þrátt fyrir svipað rekstrarform, kom í báðum skólunum skýrt fram mikilvægi þess að allt starfsfólk skólans, þ.e. allra deilda, og stundum nemendur líka, hittist reglulega á fundum til að undirstrika að allir séu jafn mikilvægir og tilheyri sama vinnustaðnum.
Eftir heimsóknirnar funduðum við Seyðfirðingar í hópum sem ræddu um það sem við sáum og heyrðum í skólunum tveimur og hvað við viljum tileinka okkur af því sem þar er gert. En einnig var rætt um samstarf deildanna þriggja í Seyðisfjarðarskóla og hvernig við viljum sjá það þróast þannig að við finnum okkur vera í sömu stofnuninni. Hópastarfið gekk afar vel og komu fram fjölmargar hugmyndir sem einhverjar verða smátt og smátt hluti af skólastarfi og menningu Seyðisfjarðarskóla.
Suðurgata 4, 710 Seyðisfjörður
Sími á skrifstofu: 470 2320
Sími á leikskóladeild 470 2330
Netfang: seydisfjardarskoli@mulathing.is
Kt: 660220-1350
Skrifstofa skólans er opin frá kl. 8:00 - 12:00